Fara í efni

SÍÐASTA GRÁÐUGA BARNIÐ ENN ÓFÆTT!

Ég tók þátt í fundum með fulltrúum frá þjóðum landanna á Balkanskaga fyrr á þessu ári. Hvað eftir annað kom fram hjá þeim að í hugum þeirra væri íslenskt samfélag að öllu leyti þróaðra samfélag en í löndum Balkanskagans. Þetta var ráðstefna um Eco ferðamennsku.
Umræða um fjárfestingu erlendra fjárfesta kom upp í allri hópavinnu og í öllum greinum. Þar var reynsla þessara þjóða sjaldnast góð. Ríkin þarna eru svo fjársvelt að hvert tækifæri er gripið til að hleypa auðhringjum inn í þau og regluverkið virðist mér alveg í molum. Þessi fjársterku fyrirtæki komast síðan upp með að fara ekki að lögum. Til dæmis eru byggingarlög þverbrotin æ oní æ og lítill vilji virðist vera til að gera athugasemdir við það af ótta við að tapa nokkrum krónum.
Og já, þessir auðhringir komu ekki síður frá Asíuríkjum en annarsstaðar frá og stjórna í krafti auðæva sinna talsvert meiru en lýðræðinu þar er hollt. - Í ljósi þess vil ég þakka Ögmundi fyrir að standa vörð um eign íslensku þjóðarinnar. Sú ákvörðun að synja þessu erlenda fyrirtæki að kaupa upp nokkuð stóran part af landinu er sönn í ljósi sjálfbærni, hugtak sem er sérstaklega ætlað til að verja hagsmuni komandi kynslóða.
Næst á dagskrá hlýtur að vera að Alþingi sjái til þess að lög um eignarhald þjóðarinnar á landi og öðrum náttúrauðæfum verði styrkt enn frekar og séð til þess að landið verði örugglega áfram í eign þjóðarinnar eftir okkar daga. Þau þurfa að vera afdráttarlaus og þannig úr garði gerð að hvergi verði hægt að efast um þau. Það verður alltaf að finna gróðrapunga sem horfa á skammtímahagsmuni fram yfir langtímahugsun. Ég held nefnilega að því miður sé síðasta gráðuga barnið ekki fætt.
Sigurður Atlason