Fara í efni

Setningarræða 40. þings BSRB

Við höldum þetta þing undir kjörorðinu Réttlátir skattar – undirstaða velferðar. Með þessu viljum við undirstrika tvennt: Annars vegar minna á að til þess að geta rekið öfluga og góða velferðarþjónustu er þörf á að afla ríki og sveitarfélögum skatttekna og hins vegar viljum við leggja áherslu á hve mikilvægt er að það skattkerfi sem við búum við sé réttlátt – menn séu skattlagðir eftir efnum og ástæðum. BSRB hefur lagt mikla vinnu í að þróa nýjar hugmyndir í skattamálum.

Þar höfum við viljað fara fram af ábyrgð og varfærni. Við höfum ekki viljað veikja skattstofna ríkis og sveitarfélaga. Við höfum hins vegar reynt að máta nýjar hugmyndir inn í veruleikann, bæði þann sem við nú búum við en einnig hinn sem blasir við okkur eftir að skattaáform stjórnvalda hafa náð fram að ganga. Ríkisstjórnin hyggst lækka skatta um 20 milljarða króna, meðal annars með því að afnema hátekjuskatt og lækka síðan skatthlutfallið um fjögur prósentustig.

Vandlega þyrfti að íhuga hvort þessum fjármunum mætti ekki ráðstafa á markvissari hátt. Í þeim hugmyndum sem unnið hefur verið með á vettvangi BSRB er gert ráð fyrir því að stórlækka jaðarskatta. En samfara lækkun jaðarskatta og þess vegna skattprósentunnar teljum við bæði vera sanngjarnt og eðlilegt að breikka skattstofna hins opinbera. Það er fráleitt annað en sama skatthlutfall gildi um allar tekjur, óháð uppruna. Þar vísa ég bæði í skatta á fyrirtæki og á fjármagn. Í samfélagi samtímans byggir fjölmennur hópur afkomu sína nær einvörðungu á arðgreiðslum eða tekjum af fjármagni. Finnst mönnum eðlilegt að mismuna í skattlagningu launatekjumanninum í óhag?  Skyldi fólk almennt gera sér grein fyrir því hve háir fjármagnsskattar eru í þeim löndum sem við berum okkur saman við? Algengt er að sama skattprósenta gildi um laun og fjármagn en sums staðar eru skattar á arðgreiðslur eftir öðru hlutfalli. Hér er skattur á vexti og arð 10%. Arðgreiðsluskatturinn í Sviss er 42,4%, Japan 50%, Þýskalandi 51,2%, Noregi 28, Svíþjóð 30, Bretlandi 32, Danmörku 43% og þannig mætti áfram telja. Allt tal um að hækkun fjármagnstekjuskatts myndi þýða stórfelldan fjármagnsflótta úr landinu er gersamlega út í hött. Það færi ekki króna úr landi, einfaldlega vegna þess að jafnvel hækkun íslenska fjármagnsskattsins um helming, um 100%, þýddi að eftir sem áður væri hann lægstur hér á landi samanborið við nánast öll lönd sem tíðkast að bera Ísland saman við. Þeir aðilar sem þegar hafa leitað í skattaskjólin á Ermarsundinu, Gíbraltar og víðar fara sínu fram, algerlega óháð skatthlutfallinu hér á landi. Í þessu sambandi er einnig til þess að líta að innan OECD er staðfastlega unnið að því að útrýma skattaskjólum á þeirri forsendu að þau séu samfélagslega skaðleg.

Sá valkostur í skattamálum sem BSRB hefur unnið að og verið að þróa byggir á virkara samspili skatta og bóta. Í stað þess að hamra í sífellu á hækkun skattleysismarka fyrir alla er okkar hugsun sú að leggja minna upp úr mikilvægi almennra skattleysismarka en gert hefur verið. Þeim mun meira viljum við leggja upp úr stuðningi við þá sem búa við bágust kjör til þess að þeir megi verða sjálfbjarga. En til þess að svo megi verða þá þarf að bæta og auka verulega opinberan stuðning í húsnæðismálum og stuðning við barnafólk í lægstu tekjuhópunum. Síðan höldum við þeirri hugsun til haga að kjarabætur til meðaltekjufólks kæmu í formi bóta en ekki síður lægra skatthlutfalli en nú er. Varðandi skattleysismörk er það að segja að við teljum að hægt eigi að vera um vik að búa svo um hnúta að virk skattleysismörk fyrir öryrkja, lífeyrisþega og atvinnulaust fólk verði eitt hundrað þúsund krónur þótt ekki ætti það við um aðra skattgreiðendur.

Á núverandi skattkerfi eru ákveðnir gallar sem mikilvægt er að sníða af. Þannig er það ótvíræður ágalli á kerfinu að það skuli ekki að fullu byggja á staðgreiðslu. Það á ekki einvörðungu við um greiðslu skatta heldur einnig - og jafnvel miklu fremur - um bætur. Eftirágreiðslur hafa það í för með sér að sú aðstoð sem fólk fær frá samfélaginu kemur iðulega ekki á þeim tíma sem hennar er mest þörf. Þannig geta liðið allt að tólf mánuðir  þangað til að bætur hækka, til dæmis í kjölfar atvinnumissis. Við slíkar aðstæður nást ekki að fullu fram kostir tekjutenginga. Þessu vill BSRB breyta með því að taka upp nýtt staðgreiðslukerfi skatta og bóta – þetta er lykilatriði: skatta og bóta.

Dómurinn í öryrkjamálinu sem svo er nefnt er öllum þeim sem starfa á vettvangi verkalýðsbaráttunnar fagnaðarefni. Dómurinn er vissulega ákveðið heilbrigðisvottorð fyrir Hæstarétt Íslands. Í sjálfu sér má þó segja að það eigi að liggja í hlutarins eðli að Hæstiréttur taki á því þegar stjórnarskrá landsins er brotin eins og gert hefur verið. Það sem hlýtur að gleðja hjörtu okkar er að þrotlaus barátta Öryrkjabandalagsins hefur skilað öryrkjum árangri. Þetta kennir okkur að samtakamáttur og þrotlaus barátta skilar jafnan árangri.

Ekki verður séð hvað vakir fyrir ríkisstjórninni að vilja skerða kjör atvinnulauss fólks. Atvinnuleysisbætur eru nú 77.449 krónur en þriggja daga skerðing eins og félagsmálaráðherra hefur talað fyrir myndi lækka þessa fjárhæð um 10.722  krónur fyrsta mánuðinn í atvinnuleysi. Ríkisstjórnum hættir stundum til að vilja sýna vald sitt. Og spyrja má: Er þetta einhvers konar manndómsvígsla fyrir nýjan félagsmálaráðherra, er hann að sýna hvað í honum býr eða hver gæti tilgangurinn annars verið? Er fyrirmyndin kannski komin frá útlöndum – og ef svo er, hver eru rökin? Þau hafa engin komið fram. Er það virkilega álit ríkisstjórnarinnar að skerðingaráformin komi í veg fyrir að fólk verði atvinnulaust – telja menn að fólk leiki sér að því að verða atvinnulaust? Það gerir enginn. En ef þetta er hugsað sem letjandi gagnvart atvinnuleysinu – kæmi þá ekki til greina að byrja á öðrum vígstöðvum? Stundum hefur verið talað um að nauðsynlegt væri að reisa einhverjar skorður við rándýrum ferðalögum ráðamanna. Ef ríkisstjórnin hefði lagt til að fyrstu þrír dagar í ferðalögum ráðherranna væru án dagpeninga þá hefði mönnum þótt stórmannlega hugsað – en það gildir sannarlega ekki um áformin í málefnum atvinnulausra.

Gestafyrirlesari BSRB á þessu þingi er Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða. Innan bandalagsins hefur um árabil verið lögð rík áhersla á að styrkja lífeyrissjóðakerfið og kalla eftir nýjum hugmyndum um hvernig eigi að þróa það. Þegar á heildina er litið hefur núverandi fjármálaráðherra, og reyndar forveri hans einnig, sýnt þessu skilning. Sama gilti um sveitarfélögin. Ný lífeyrislög komu til framkvæmda í ársbyrjun 1997 eftir að víðtækt samráð hafði náðst við samtök launafólks. Þær raddir eru vissulega nú að nýju háværar sem krefjast aukins vægis séreignarsparnaðar í kerfinu og þá jafnvel á kostnað samtryggingarinnar. Þessir aðilar telja að þannig verði hagsmunum einstaklingsins betur þjónað. Þetta er mikill misskilningur. Það er rétt að einstaklingsbundinn lífeyrisréttur erfist og vissulega má til sanns vegar færa að einstaklingurinn gæti þannig glaðst yfir þeirri tilhugsun að hann skilji eftir einhverjar krónur handa erfingjum sínum eftir sinn dag. Vilji menn hins vegar styrkja eigin lífeyrisrétt þá halda menn fast í samtryggingarkerfið sem byggir á rétti til lífeyris en ekki krónutölu í sjóði. Ef horfið yrði frá samtryggingarkerfinu og yfir í einstaklingstryggingar, þá yrðu lífeyrisgreiðslur til lífeyrisþega talsvert lægri en þær eru nú. Hins vegar er mikilvægt að skoða með hvaða hætti er hægt að gera kerfið sveigjanlegra til að mæta óskum einstaklinganna, til dæmis með því að tryggja þeim hlutfallslega hærri greiðslur á fyrstu árum lífeyristöku en síðar á æviskeiðinu. Þetta er nokkuð sem mjög er rætt um innan lífeyrissjóðanna nú.

Öðru hvoru heyrist að lífeyrissjóðir eigi að kjósa í stjórnir sínar með öðrum hætti en nú tíðkast. Vísað er þá til aðalfunda svipað og gerist hjá hlutafélögum. Ég staðhæfi að lífeyrissjóðirnir búa við miklu lýðræðislegra skipulagsform og miklu meira aðhald og eftirlit en nokkurt hlutafélag eða annar rekstur gerir. Samtök launafólks kjósa í sjóðsstjórnir og skipulega fer fram umræða á fjölmennum fundum þar sem farið er í saumana á málefnum sjóðanna. BSRB hefur lagt sérstaka rækt við að efla umræðu um þá lífeyrissjóði sem félagsmenn í samtökunum eiga aðild að.

Annað sem mikilvægt er að hyggja að varðandi lífeyrissjóðina er samfélagslegt hlutverk þeirra. Lífeyrissjóðirnir eru sem kunnugt er orðnir mjög fyrirferðarmiklir í íslensku fjármálalífi. Þetta setur þeim ríkar skyldur á herðar. Þótt við Íslendingar höfum valið þá leið að standa straum af lífeyriskostnaði með sjóðsmyndun í stað gegnumstreymiskerfis þá má það aldrei gleymast að sömu lögmál eru gildandi í báðum kerfum. Það er ekki svo að peningar sem lagðir eru til hliðar í sjóð – standi þar og bíði þar til þeir verða teknir úr bauknum. Í báðum kerfum þarf að taka tiltekin verðmæti út úr hagkerfinu, eða öllu heldur færa þau á milli vasa. Þá skiptir máli að hagkerfið rísi undir þessum skyldum. Verðmætasköpunin í framtíðinni þarf með öðrum orðum að vera í samræmi við framtíðarskuldbindingar okkar gagnvart lífeyrisþegum framtíðarinnar. Í þessu ljósi þarf að skoða efnahagslega ábyrgð lífeyrissjóðanna. Þótt þeim sé gert með lögum að leita eftir hámarksarðsemi þá er líka vísað til þess í lögum að fjárfestingar þeirra séu eins tryggar og nokkur kostur er. Í samræmi við það ber lífeyrissjóðunum að leggja sitt af mörkum til að stuðla að jafnvægi í efnahagskerfinu, til dæmis með því að halda fjármagnskostnaði niðri. Lífeyrissjóðirnir eiga allt sitt undir því komið að hagkerfinu vegni vel. Í því er trygging þeirra fólgin. Hvorki á heimilin né atvinnulífið má leggja of þungar vaxtabyrðar. Lífeyrissjóðunum ber skylda til þess að stuðla að eins lágu vaxtastigi og kostur er.

Annað sem lífeyrissjóðirnir verða jafnan að hafa í huga er að það fjármagn sem þeir hafa handa á milli er lögbundinn sparnaður. Slíkan sparnað, sem samfélagið hefur orðið ásátt um að standa að, ber að nýta til samfélagslega mikilvægra verkefna. BSRB hefur talað fyrir því að efnt verði til samstarfs lífeyrissjóða, ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu húsnæðiskerfisins. Hugmynd okkar, sem mótuð var á síðasta aðalfundi BSRB, hefur verið sú að lífeyrissjóðirnir reiddu fram lánsfjármagn á lágum vöxtum - en með tryggingu ríkisins -  til að reist verði leiguhúsnæði á vegum félagslegra aðila. Þegar fram líða stundir – en aðeins þá – eftir að til eru orðin stöndug byggingarfélög sem reistu eða rækju (nema hvort tveggja væri) leiguhúsnæði, mætti hugsa sér að lífeyrissjóðirnir kæmu inn sem eignaraðilar. Þetta er kerfi sem er að finna víða á meginlandi Evrópu. Kostir slíks fyrirkomulags eru annars vegar að þetta er trygg fjárfesting fyrir lífeyrissjóðina og hins vegar kemur þetta samfélaginu mjög til góða.

Áður en ég skil við lífeyrismálin vil ég beina því til sveitarfélaganna að þau fari að fordæmi ríkisins varðandi tveggja prósenta mótframlag í séreignarsparnað. Það voru óneitanlega mikil vonbrigði í árslok árið 2000 þegar gengið var frá slíku samkomulagi við ríkið að sveitarfélögin skyldu ekki reiðubúin að gera slíkt hið sama.

Mikil framfaraspor hafa verið stigin á sviði fæðingarorlofsmála í landinu og verður aldrei nógsamlega lýst ánægju með þau skref sem stigin hafa verið í þeim efnum. Einn skuggi hvílir þó hér yfir. Þannig er að því launafólki sem starfar hjá öðrum en hinu opinbera hefur ekki auðnast að fá tryggðan með samningum rétt til greiðslna í sumarorlofi að loknu fæðingarorlofi. Þetta er mjög bagalegt, sérstaklega fyrir tekjulágt fólk. Það getur ekki hafa verið ætlan löggjafans að einn réttur – rétturinn til stórbætts fæðingarorlofs – yrði til þess að éta burt önnur réttindi – réttinn til greiðslu í sumarorlofi. Úr þessu þarf að bæta og fæ ég ekki séð að það verði gert á annan hátt en með lagabreytingu sem kvæði á um að sumarorlofið yrði greitt úr fæðingarorlofssjóði.

Það fólk sem er í þessum sal hefur vafalaust allt skoðun á stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi og annars staðar. Ég efast heldur ekkert um að þær skoðanir eru mjög skiptar. Sem heildarsamtök – sem BSRB - höfum við hins vegar aldrei reynt að taka afstöðu til þessara framkvæmda – né reyndar heldur annarra deilumála sem skoðanir eru mjög skiptar um innan okkar samtaka. Um hitt höfum við aftur á móti ályktað – enda þar fullkomlega samstiga – að virða beri réttindi launafólks, hvort sem það er innlent eða erlent. Við höfum eindregið stutt kröfur verkalýðsfélaganna um úrbætur fyrir verkamenn við Kárahnjúka. Á þessu þingi BSRB verður án efa rætt um leiðir til að styrkja stöðu aðkomuverkamanna, hvort sem það yrði með lagasetningu eða öðru móti. Íslendingar mega ekki láta það henda sig að um útlent farandverkafólk gildi lakari lög og reglur en um íslenskt launafólk. Fulltrúar íslensku stéttarfélaganna hafa staðið vel vaktina að þessu leyti.

Fyrir þessu þingi liggur fjöldi tillagna og hefur verið lögð mikil vinna í undirbúning þeirra. Flestar byggja á eldri stefnumótun en hafa verið aðlagaðar breyttum aðstæðum og breyttum viðhorfum. Þannig er nú að finna áherslur á GATS-samninginn – sem er efalaust einn mikilvægasti alþjóðasamningur sem nú er á döfinni; samningur sem er líklegur til að hafa mikil áhrif á skipulag almannaþjónustunnar í framtíðinni. BSRB hefur lagt mikla vinnu í að fylgjast með þessum samningi, sem og samningaferlinu í kringum hann, og mun væntanlega halda því verki áfram.

Á meðal annarra verkefna sem við vinnum að núna er endurskoðun á kjarasamningalögunum en þar hefur BSRB lagt ríka áherslu á að finna leiðir til að styrkja stöðu trúnaðarmanna.

Þá hafa fræðslumál verið mjög í deiglunni á undanförnum áratug og hefur BSRB unnið markvisst að því að byggja þann þátt upp meðal félagsmanna. Átak var gert í tölvufræðslu félagsmanna og hafa um 2000 manns sótt tölvufræðslu BSRB sér að kostnaðarlausu en ljóst var að mikil þörf var fyrir að efla tölvulæsi meðal félagsmanna okkar. Á þessu sviði hafa samtök launafólks haslað sér völl og munu gera enn betur á komandi árum. Hér höfum við mætt góðum skilningi hjá viðsemjendum okkar.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka fyrir hönd BSRB samstarf við önnur samtök launafólks. Það samstarf hefur verið mjög gott og í öllum meginatriðum liggja baráttumálin í einum og sama farveginum. Enda þótt leiðir í skattamálum kunni að vera mismunandi er það víst að öll samtök launafólks eru að leita leiða til að gera skattkerfið þannig úr garði að það sé í senn skilvirkt og réttlátt. Um samstarfsverkefni má nefna að BSRB hefur beitt sér fyrir úrbótum í húsnæðismálum í góðri samvinnu við ASÍ og varðandi réttindamál hefur tekist framúrskarandi gott samstarf við BHM og Kennarasamband Íslands. BSRB, BHM, KÍ og Samband íslenskra bankamanna hafa einnig tekið um það ákvörðun að nýta í sameiningu, alla vega að hluta til, opinbert fjármagn sem rennur til hagfræðirannsókna verkalýðssamtakanna. Þannig er fyrirsjáanlegt að til verður Rannsóknarstofnun starfsfólks í almannaþjónustu, starfsemi sem við væntum okkur góðs af. 

Góðir félagar!

Einhvern tímann var sagt að samfélag væri ekki fyrirtæki og að önnur lögmál ættu við um rekstur samfélags en um rekstur fyrirtækis. Undir þetta vil ég taka. En jafnvel þótt við töluðum tungumáli fyrirtækjanna þá stenst almannaþjónustan hvaða samanburð sem er. Við sem hér erum saman komin erum fulltrúar fólks sem eru þátttakendur í best heppnaða fyrirtæki landsins, samneyslunni. Stundum er undan henni kvartað. En þegar á heildina er litið þá ríkir um hana sátt. Til félagsmanna í BSRB – hvort sem það er hjá ríki, bæ, sjálfseignarstofnunum, póstþjónustunni eða öðrum aðilum, – til starfsmanna almannaþjónustunnar er borið traust. Það er vitað að þeir sinna störfum sínum af kostgæfni og alúð án þess að vera knúnir til verka af eigingirni eða gróðavon. Þetta eru fulltrúar gæðanna.

Það hefur sýnt sig í þróun samfélagsins að því betri sem menntunin er og því betri sem heilsugæslan er, þeim mun ríkara verður samfélagið. Betri samgöngur, raforkukerfi og almennt traustari innviðir hafa gert okkur að öflugra samfélagi. Þetta er kallaður kostnaður en er í raun ómetanleg fjárfesting. Það er ekki kostnaður að lækna hinn sjúka, það er fjárfesting. Það er ekki kostnaður að mennta unga manneskju, það er fjárfesting. Við þurfum að kenna fólki nýja hugsun í bókhaldi. Samfélagsþjónusta er þess eðlis að hún greiðir öllum götu og er í eðli sínu fjárfesting en um leið er hún ein af mikilvægustu forsendum þess að mannauður þjóðarinnar fái að þroskast og ávaxtast með heilbrigðum hætti.

En þetta er tungumál arðseminnar. Það er umhugsunarefni að okkur sé að verða tamt að nota þetta tungumál. Við vitum að það hrífur gegn þeim öflum sem allt vilja meta á mælistiku markaðshyggjunnar og helst ganga lengra og setja allt á markað, skólana, spítalana, raforkuverin og drykkjarvatnið.

En hvert var tungutak þeirra sem smíðuðu velferðarkerfi samtímans?

Sú þjónusta sem velferðarsamfélagið býður upp á hefur ekki alltaf verið til. Þessi tegund af samfélagi sem við erum stolt af í dag var búin til af fólki sem trúði því að hægt væri að byggja upp samfélag á grunni samhjálpar. Að rík samhjálp og góð samfélagsþjónusta væri ekki aðeins möguleg heldur nauðsynleg forsenda fyrir vel heppnuðu þjóðfélagi.

Þá var ekki spurt hvort menntun væri fjárfesting – menn trúðu því að menntun færði einstaklinginn fram á við,
að menntun, og allt menningarstarf yfirleitt, kæmi okkur til þroska.
Þá var ekki spurt hvort lækningar gæfu af sér arð – menn trúðu því að okkur bæri skylda til að lækna hinn sjúka,
menn trúðu því að okkur bæri til þess skylda vegna þess að hann væri veikur og þarfnaðist hjálpar.

Við eigum að hugsa á sömu nótum og þeir og þær sem trúðu á samhjálp og bætta samfélagshætti.
Við eigum að hugsa á sömu nótum og þeir og þær sem þorðu að vera bjartsýn.
Við eigum að trúa því að hægt sé að bæta samfélagið; og við eigum að trúa því að við getum verið áhrifamáttur í því sambandi.
Við eigum að trúa á eigið frumkvæði til nýsköpunar og framfara.
Okkar vörn er að bæta okkur, bæta þjónustuna sem við veitum. Við eigum að sýna fram á að við erum fulltrúar gæða sem aldrei verða keypt á markaði. Okkar leið er að sýna fram á að eðli samfélagsþjónustu er slíkt að hún nýtur sín best utan ramma peningahyggju og peningahagsmuna.
Við eigum að sýna fram á að okkar leið er leið til framfara.

Það er ennþá þörf fyrir bjartsýni, baráttu, samtakamátt, samvinnu og ekki síst lífsgleði allra þeirra sem ganga til verka sinna dag hvern með trú á framtíðina. Í þessu öllu er galdur framfaranna fólginn.

Góðir félagar!
Ég segi 40. þing BSRB sett.