Fara í efni

SEÐLABANKINN BILAR

Sæll Ögmundur.
Við vorum að ræða það vinkonurnar yfir grillinu í blíðunni hvernig Davíð Oddsson plummaði sig í Seðlabankanum. Ein okkar var viss um að hann væri í sínu besta stuði. Önnur sagðist vita það í gegnum mág sinn, en ég var ekki viss. Ég var alltaf svolítið svag fyrir honum í menntó og kaus hann í borginni, en mér fannst hann svíkja þegar hann flutti sig yfir á Lækjartorg og hætti því. Hann var að vísu kosinn til að gegna embætti sínu við Kalkofnsveg, en ég hafði ekki kosningarétt þá. Þar var bara einn maður á kjörskrá. Hann sjálfur.
Í Danmörku er hægri stjórn við völd undir forystu framsóknarmanna. Ríkisstjórnin þar í landi rekur svipaða efnahagsstefnu og hér er reynt að reka. Nationalbanken í Danmörku hefur svipað hlutverk og Seðlabankinn hér. Nokkrir tugir mann spá og spekúlera í efnahagsmál í vernduðu umhverfi, lesa útlend blöð og sigla seglum þöndum á netinu. Þessir menn vita allir hvað æskilegast hefði verið að gera í efnahasgsmálum um svipað leyti og nýr seðlabankastjóri tók við völdum. Hækka skatta í stað þess að lækka þá, frysta tekjur af sölu ríkiseigna eða nota féð til að greiða niður skuldir, hækka vexti til að gera lán dýrari og beita almennum hagstjórnaraðgerðum til að koma í veg fyrir að almenningur veðsetti sig og börnin sín hjá bönkunum fyrir húsnæðis- og neyslulán.
Ekkert af þessu gerðu menn og nú er það of seint. Í Danmörku er rekin hörð hægri stefna eins og á Íslandi. Í Kaupmannahöfn er verðbólgan nú 1,8%, laun hækka lítið þrátt fyrir mikla þenslu, Danir skuldlausir að kalla, kaupmáttur fer vaxandi, það dregur út atvinnuleysi og verðlag hefur aldrei verið stöðugra. Búist er við að dragi úr verðbólgu á þessu ári. Á Íslandi er rekin hörð hægri stefna í efnahagsmálum, er það ekki?
Í Reykjavík er verðbólgan 7,6% eða rúmlega fjórum sinnum meiri en í Kaupmannahöfn, laun hafa hækkað gríðarlega að undanförnu, skuldir Íslendinga hlaðast upp, kaupmáttur fer að dala í verðbólgunni, það er mikil þensla á vinnumarkaði og verðlag er óstöðugt. Búist er við að verðbólga verði á milli 9 og 10% á þessu ári, eða tæplega sex sinnum meiri verðbólga en í Kaupmannahöfn. Hagstjórnin er í molum, Seðlabankinn bilaður og efnahagsbyltingin étur börnin sín. Hvernig stendur á því Ögmundur að þið í stjórnarandstöðunni gerið ekki athugasemdir við faglega getu Seðlabankans til að sinna hlutverki sínu? Ég spyr af því þú veist að klúðrið í hagstjórninni lendir á þeim almenningi sem óupplýstum var boðið á neyslufyllerí án þess að vita hann þurfti að borga þegar ballið var búið.
Kv.
Ólína