Fara í efni

Samviska utanríkisráðherra og lýðræðið

Sitthvað athyglisvert kom fram í fréttum útvarps- og sjónvarpsstöðva í dag og vil ég þar sérstaklega nefna fréttaskýringu Friðriks Páls Jónssonar á fréttastofu Ríkisútvarpsins um stuðningsmannahóp Bush Bandaríkjaforseta í Speglinum og viðtal við Steingrím Hermannsson fyrrverandi forsætisráðherra um sama efni. Einnig bar hátt yfirlýsingar Halldórs Ásgrímsonar utanríkisráðherra á fundi með stúdentum í HÍ. Á þær vil ég drepa í þessum brennidepli. Halldór sagði á þá leið að honum bæri að taka ákvarðanir í samræmi við sína bestu samvisku. Það ætti vissulega við í Íraksmálinu. Þetta er rétt Halldóri. En hann má ekki gleyma því að þetta á við um okkur öll. Deilurnar að undanförnu um aðkomu Alþingis að Íraksmálinu hafa ekki aðeins staðið um dómgreind utanríkisráðherrans og ríkisstjórnarinnar – eða öllu heldur skort á henni - heldur um lýðræðisleg vinnubrögð. Stjórnarandstaðan gerði kröfu um að koma að málinu, vísaði til lýðræðislegra vinnubragða og einnig þingskaparlaga. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hafði að auki lagt fram þingsályktunartillögu um að Íslendingar lýstu andstöðu við árás Bandaríkjamanna og Breta á Írak og að ekki kæmi til greina að heimila afnot af íslensku landi eða lofthelgi í tengslum við árásina. Þetta fékkst ekki afgreitt í þinginu og beitti meirihlutinn sér gegn því að umræða og atkvæðagreiðlsa færi fram um málið.

Lýðræðisskipulag byggir á því að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar fái komið sínum sjónarmiðum að og fái tækifæri til þess að láta vilja sinn í ljós. Síðan er meirihluti atkvæða látinn ráða niðurstöðu. Afstöðu hlýtur hver og einn að taka í samræmi við samvisku sína.

Ef til vill var það táknrænt að þessi afstaða Halldórs Ásgrímssonar til lýðræðisins kæmi fram á fundi þar sem aðeins einn frummælandi var til staðar – og míkrófónninn að sjálfsögðu í hans hendi: Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra.