Fara í efni

SAMTÖK ATVINNULÍFSINS Í GREIPUM STÓRIÐJU?

SA og storidjan
SA og storidjan


Einu sinni las ég skýrslu frá Vegagerðinni um vegalögn. Í formálsorðum sagði að nefndin sem gerði skýrsluna hefði varið löngum tíma í að ræða hvers vegna yfirleitt væri ráðist í vegagerð. Mér þótti þetta skondið og henti gaman að.

Markmiðin skipta máli

Þetta var fyrir tuttugu áraum. Langt er síðan ég hætti að hlæja að skýrsluhöfundum. Nú veit ég að spurningin var réttmæt; að menn leggja vegi með mismunandi markmið í huga. Eitt markmið getur verið að vilja komast hratt og örugglega á milli staða, annað að komast leiðar sinnar um fagurt landslag til að njóta þess. Bara þetta tvennt kallar á gerólíkar úrlausnir. Annars vegar akveg sem framar öllu er greiðfær. Í hinu tilvikinu ræður landið og náttúran öllu um hvernig vegurinn er lagður.
Eins er það með skattana. Þegar þeir eru lagðir á fólk og fyrirtæki þarf að huga að markmiðum. Þar getur eitt skipt máli á einum tíma, annað á öðrum.

Markmið skattlagningar

Almennt lít ég á skatta með tvennt í huga. Með þeim er aflað tekna fyrir almannaþjónustuna. Í annan stað eru þeir tæki til tekjujöfnunar. Eflaust vildu flestir losna við að borga skatta - láta aðra um það! Þó held ég að við viljum flest fremur greiða fyrir almannaþjónustuna með sköttum en notendagjöldum, betra að borga fyrir sjúkrahúsvistina meðan maður er heill heilsu og aflögufær en þegar maður er kominn máttvana í rúmið. Allt er þetta síðan spurning um forgangsröðun, hvar er réttlátast að bera niður og hvar er skynsamlegast að gera það.

Skattastefnu í þágu atvinnusköpunar

Það er einmitt að skynseminni sem ég vil víkja fáeinum orðum. Á tímum samdráttar, þegar um það er að ræða að skapa störf en fækka þeim ekki þá ber að haga skattlagningu með það í huga. Ég minnist þess á tíunda áratugnum þegar Frakkar leituðu leiða í gegnum skattakerfið að örva atvinnu þá drógu þeir úr skattlagningu á allt sem var launatengt og færðu skattbyrðarnar þess í stað yfir á almennan framleiðslukostnað - kostnað sem var óháður eða lítt háður mannaflanum.
Hér á landi myndi þetta þýða orkuskatta fremur en tryggingagjöld. Hvers vegna skyldu íslenskir atvinnurekendur vilja fara gagnstæða leið? Hvers vegna er þeir á móti því að fara leið sem augljóslega er samfélagslega ábyrg? Hvers vegna eru þeir á móti stóriðjusköttum en vilja hækka launatengd gjöld? Hver vegna þessar áherslur? Hvað skyldu félagsgjöld stóriðjunnar annars vega þungt í félagsgjöldum SA?