Fara í efni

SAMMÁLA PÁLI

Sæll félagi Ögmundur.
Svona fór um sjóferð þá! En í stað þess að dvelja við það liðna vil ég aðeins spá í spilin sem sá Framsóknarmaður sem ég var fram að 12 ára aldri. Ef ég væri formaður Framsóknarflokksins í dag, sýndist mér einboðið að mynda stjórn með VG og Samfylkingu. Í öllu falli myndi ég forðast eins og heitan eldinn að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokki. Gerði ég það væri ég að stefna góðum árangri Framsóknar í kosningunum í stórhættu. Framsókn, öfugt við Sjálfstæðisflokkinn, hefur farið í gegnum vissa endurnýjun á hugmyndum sínum og gert upp við hægri arfleifð Halldórs og Finns. Sú endurnýjun Framsóknar fer beint í vaskinn í hugum fólks ef endurtaka á stef hrunstjórnarinnar. Það er sá blettur á fortíð Framsóknar sem flokkurinn þarf að bráðnauðsynlega að afmá. Fari Framsókn í stjórn með Sjöllum, blasir við á ný einkavæðingarferli heilbrigðiskerfisins og allur sá djöfulskapur sem fólki er í fersku minni, mun endurtaka sig. Fari Framsókn hins vegar til vinstri, á flokkurinn mun betri möguleika á að festa sig í sessi í þeim þyngdarflokki sem hann kom sér í núna í kosningunum. Hann getur leyft sér að koma á móts við þarfir fólksins í landinu, sem ítrekað hefur lýst vilja sínum til að efla velferðarkerfið og vernda náttúruna. Með því að fara í stjórn með VG og Samfylkingu nær Framsókn einnig að styrkja andstöðuna við ESB innan VG og fær Samfylkinguna til að láta af ESB- áráttu sinni. Það yrði öllum þessum flokkum, landi og þjóð til heilla. Hvað sýnist þér Ögmundur?
M.b. kv.,
Páll H.

Þakka bréfið Páll.
Ég er þér sammála.
Ögmundur