Fara í efni

SAMKVÆMISLEIKUR UM KOSNINGAHELGI

MBL
MBL

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 26./27.05.18.
Þrátt fyrir tvær heimsstyrjaldir, plágur og hungursneyð, ófáar mannskæðar borgarastyrjaldir, innrásir og yfirgang stórvelda, kúgun og ofsóknir á hendur minnihlutahópum; þrátt fyrir allt þetta er tuttugasta öldin mesta framfaraskeið mannskynssögunnar. Þá urðu stórkostlegar framfarir í læknavísindum og í hvers kyns tækni, sem gerir lífið auðveldara í betri híbýlum, samgöngum og samskiptum almennt. Sumir segja að með tilkomu tölvutækninnar hafi opnast á alveg nýjan heim.  

Og þá er komið að því að hefja samkvæmisleikinn sem gengur út á að finna þær uppgötvanir sem mestu skiptu fyrir framfarir á öldinni sem leið og fram á þennan dag. Auðvitað veltur svarið á því hver spyr og hvers vegna. Ef þú gengur með erfiðan sjúkdóm þá er lyfið sem læknar hann eflaust mikilvægast í þínum huga; ef þú býrð á köldu svæði er það tæknin til húshitunar sem mestu skiptir og loftkælingin að sama skapi á hitasvækjusvæðum.  

Svo er það vatnsklósettið, skurðgrafan og samgöngurnar. Hvort skyldi flugvél eða stígvél hafa verið mikilvægari? Ég er ekki viss, eða hvers vegna skyldu fyrri tíðar Íslendingar sjaldan hafa gengið á fjöll nema þeir ættu brýnt erindi, til dæmis að smala sauðfé? Skóbúnaður hefur þar eflaust skipt einhverju máli. Kannski voru góðir skór mikilvægasta samgöngubótin þegar allt kemur til alls.

Gerum við okkur fulla grein fyrir því hvílík blessun það var að uppgötva lesblindu? Fyrr á tíð voru börn hreinlega dæmd úr leik sem tornæm ef þau áttu erfitt með lestur. En þá fannst lesblindan og allir fengu nýja sýn á hinn lesblinda og hann á sjálfan sig. Þetta var ekki ómerkileg uppgötvun. Við gætum haldið áfram. Barn með ofnæmi eða mataróþol getur verið kvikt og jafnvel ódælt. Þegar næringarfræðin leiddi okkur fyrir sjónir að á þessu væru lífeðlisfræðilegar skýringar, breyttist allt í viðhorfum umhverfisins.

Eins er það með transgender, fólk sem fæðist á mörkum kynjanna. Það er ekki fyrr en núna - og teygjum við okkur þá aðeins inn í tuttugustu og fyrstu öldina - að þetta verður lýðum ljóst og mun verða frelsandi fyrir ófáa einstaklinga og þess valdandi að hamingjustuðull samfélagsins rís.

Er þá komið að mínu svari í samkvæmisleiknum um merkilegustu framfarirnar. Það tengist þessari helgi, kosningahelginni. Áhersluatriði í stjórnmálum skipta nefnilega máli þegar hamingjustuðullinn er annars vegar.

Ég er sannfærður um að þegar það verður orðið almennt viðurkennt að jöfnuður er hamingjuríkur, þá verða sanngjörn skipti mál málanna.  

Því fer þó fjarri að allir hafi komið auga á þessi sannindi. Thatcher, Hayek og Friedman sáu þetta til dæmis aldrei. Þau töldu að ef hinir ríku fengju að baka sín stóru brauð, hrytu svo margir molar af borðum þeirra til smælingjanna að þeim væri vel borgið. Þetta hefur verið kölluð brauðmolakenningin, trickle-down economics, og hefur hvergi gengið upp.

Á hinn bóginn hafa svo verið boðaðar gagnstæðar kenningar þar sem við höfum verið minnt á það með táknrænum hætti að ef brauðinu og fiskunum er útdeilt á réttlátan hátt, þá er nóg fyrir alla.  

Þetta finnst mér hafa verið ágætust allra uppgötvana. Hún er að vísu eldri en frá öldinni sem leið. En hún á hins vegar við á öllum tímum og sérstaklega við hæfi að gefa henni gaum þegar gengið er að kjörborði í kosningum.