Fara í efni

SAMFÉLAG EÐA SUNDRUÐ Á MARKAÐI?

Birtist í 24 Stundum 31.10.07.
Ýmsir hagspekingar hafa bent á að svo kunni að fara að evran komi inn í  íslenskt hagkerfi  án pólitískrar ákvörðunar: „Evran taki sig upp sjálf,“ einsog það var orðað á forsíðu Fréttablaðsins í byrjun vikunnar. Þar var vitnað í yfirlýsingar forsvarsmanna á vinnumarkaði að svo gæti farið að samið yrði um evrulaun í kjarasamningunum framundan. Ólafur Ísleifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, sagði af þessu tilefni að æskilegra væri að um gjaldmiðilinn væru teknar formlegar og yfirvegaðar ákvarðanir því óbeisluð þróun hefði ýmsar óheppilegar afleiðingar: „Evran kæmi þá fyrir tilverknað fjölda aðila þar sem hver leitast við að taka ákvarðanir út frá eigin hagsmunum. Og þarna eru komnir forystumenn launafólks og atvinnurekenda sem telja að það geti þjónað hagsmunum beggja að semja um kaup og kjör í erlendri mynt.“
Allt er þetta til umhugsunar. Að sjálfsögðu er eðlilegt að horft sé til hagsmuna einstaklinga og hópa og málin gaumgæfð í tæknilegu samhengi. Þannig væri vert að íhuga að með því að semja við starfsfólk um evrulaun væri verið að færa gengisáhættu sem ella hvíldi á fyrirtæki yfir á fólkið sem þar starfar. Hitt þyrfti einnig að hafa í huga að einhver fyrirtæki, einkum í fjármálaheiminum, sýsla mest í evrum og vilja því greiða laun í þeim gjaldmiðli.
Þá þyrfti að spyrja hvort  raunin kynni að vera sú að gjaldmiðillinn væri látinn gjalda rangrar efnahagsstefnu, skuldinni skellt á krónuna þegar við ranga efnahagsstefnu stjórnvalda væri að sakast.
Það sem veldur mér hins vegar mestum heilabrotum er hvernig fólk er farið að nálgast umræðu um gjaldmiðilinn, hve þröngt sjónarhornið er. Staðreyndin er að sjálfsögðu sú að við stöndum utan Evrópusambandsins og búum við sjálfstæðan gjaldmiðil, íslensku krónuna.  Þetta er staðreynd hvað sem síðar verður. Við þessar aðstæður skiptir krónan efnahagslíf okkar og þar með samfélagið allt máli. Ef við veikjum gjaldmiðil þjóðarinnar, veikjum við jafnmframt innviði íslensks samfélags. Þess vegna tek ég undir með Ólafi Ísleifssyni að þær ákvarðanir sem við tökum eigum við að taka sameiginlega og á yfirvegaðan hátt.
Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þeim fer fjölgandi sem gefa lítið fyrir svona tal. Það á að vísu ekki við um þorra fólks í landinu en á meðal þotuliðsins – ofurlaunafólksins – virðast nú orðið vera margir sem gefa lítið fyrir að vera Íslendingur. „Nú heitum við bara group.is,“  segja nýju fjárfestingarhóparnir, sem fyrir löngu eru hættir að kenna sig við Flugleiðir, Samskip  eða Eimskipafélagið -  því var hætt um svipað leyti og hætt var að stunda strandsiglingar við Ísland enda buðust betri „fjárfestingarkostir“ erlendis. Það eru þessir aðilar sem segja að það sé orðið úrelt að tilheyra samfélagi. Að vísu finnst þeim það ágætt á meðan þeir nýta sér ókeypis íslenska utanríkisþjónustu og á meðan ríkisstjórn og forseti  landsins tala þeirra máli.
Þessa umræðu þurfum við að taka þegar við ræðum um krónur og evrur. Spyrja þarf hvort við ættum kannski að hætta að vera samfélag og snúa okkur þess í stað að því að gerast einstaklingar og fyrirtæki á markaði. Mín skoðun er sú að með því móti myndum við veikja okkur sem hóp. Íslenskt þjóðfélag býr nefnilega yfir miklum krafti sem sprottinn er frá menningu okkar og samtakamætti sem þjóðar. Þetta höfum við sýnt aftur og ítrekað og þetta er nokkuð sem forsvarsmenn í íslensku atvinnulífi skyldu ekki vanmeta. Ef við gerum hið menningarlega og samfélagslega  útlægt úr  tilverunni kemur það til með að bitna á hinum efnislegu þáttum.
Mín niðurstaða er þessi: Forðumst hin þröngu sjónarhorn í efnahagsumræðunni. Ræðum málin  út frá hagsmunum samfélagsins sem heildar.