Fara í efni

SAID OG BARENBOIM Í RÚV: KENNSLUSTUND Í SIÐFERÐI OG HUGREKKI


Í gær var sýndur afbragðsgóður þáttur í Sjónvarpinu um friðarframtak þeirra félaga, snillinganna Edwards heitins Assis og Daniels Barenboims. Sá fyrrnefndi Palestínumaður, hinn gyðingur, sem að hluta til óx úr grasi í Ísrael. Á sama tíma og hernámsþjóðin ísraelska hefur reist múr sem umlykur fórnarlömb hennar í Palestínu hafa þessir menn leitast við að brjóta niður múra – einkum hina huglægu.
Sjónvarpsþátturinn í gær fjallaði um það framtak þessara manna að mynda fjölþjóðlega hljómsveit ungs fólks, þar á meðal með hljóðfæraleikurum frá Ísrael og Palestínu, með það fyrir augum að færa nær hvert öðru fólk sem býr sitt hvoru megin óvildarmúra.
Hápunktur þessa framtaks voru hljómleikar í Ramallah á Vesturbakkanum. Þeir voru áhrifaríkir og þá ekki síður hitt að fylgjast með Barenboim taka við verðlaunum í ísraelska þinginu, Knesset. Hann hélt þar magnaða þakkarræðu þar sem hann ræddi m.a. mikilvægi þess að virða lýðréttindi. Augljóst var að hann átti við réttleysi hinnar undirokuðu palestínsku þjóðar. Þetta skildi ísraelski menntamálaráðherrann sem árás á Ísrael og beindi hörðum skeytum að listamanninum sem þá aftur steig í pontu og svaraði fyrir sig á hófstilltan en ákveðinn hátt þar sem hann minnti á mikilvægi tjáningarfrelsisins. Þá mátti heyra hvað það þýðir að hafa moral authority, siðferðisvald (eins og hugtakið var þýtt í þættinum) eða siðferðilegan áhrifamátt, siðferðismátt (?)... Þann mátt hafa þeir Barenboim og Said sýnt með orðum sínum og verkum.
Þættinum lauk klukkan korter fyrir eitt eftir miðnættið. Þótt ástæða sé til að þakka Sjónvarpinu fyrir að sýna þennan þátt þyrftu stjórnendur þar að spyrja sjálfa sig hvort ekki væri ráð að láta einhverja fjöldaframleidda sápuþætti víkja – alla vega endrum og eins - fyrir eðalþáttum eins og þessum á besta áhorfstíma kvöldsins í stað þess að sýna hann um og eftir miðnættið. Allir aldursflokkar hefðu þurft að eiga þess kost að sitja þessa kennslustund Barenboims (Said lést fyrir nokkru og kom því minna við sögu) í siðferði og hugrekki.