Fara í efni

SADÓ-MASÓKÍSKI ÞRÁÐURINN

Sæll Ögmundur.
Nú les ég á síðunni hjá þér að afstaða Lilju Mósesdóttur og þín í Icesavemálinu geri ríkisstjórnina, hina „annars ágætu ríkisstjórn", óstarfhæfa. Þetta mælir Pétur, maður sem mér finnst vera holdtekja dætra heimskunnar, maður svo hræddur um sig, ríkisstjórnina og Icesave, að æðar pipra í hörundi hans sakir hræðslu. Icesavemálið virðist villa Pétri svo sýn að hann veit varla á hvers vegum hann gengur. Eini fasti punkturinn eru hin síð-sovésku viðhorf sem felast meðal annars í að telja sig vita betur, að vilja ákveða fyrir aðra og þetta, að vera bærastur til að taka ákvörðun, einkum fyrir aðra.
Ég velti stundum fyrir mér hvaðan lýðræðissinnanum kemur rétturinn til að krefjast þess að allir sem eru í sama flokki verði að vera á sömu skoðun og hann, eða hún. Forystuhlutverk, fyrr og nú, veitir lýðræðissinnanum ekki vald yfir öðrum. Pétur þykir mér ganga út frá einhvers konar útfærslu af kenningum Leníns um hlutverk „hinna sönnu byltingasinna". Um þá kumpána giltu önnur lög og aðrar reglur, en giltu um allan almenning. Menn af því kalíberi telja sig geta niðurlægt fólk með því að telja það vera í einhverju „klani".
Mér finnst nokkuð ljóst, svo mjög sem Pétur þessi mælir á heimasíðunni þinni, að þar fari VG maður, en ég vona að Icesavemálið verði ekki til þess að flokksmenn fari almennt að spinna þann síð-sovéska þráð sadó-masókismans sem mér finnst röksemdafærsla Péturs hvíla á. Það er ekki hlutverk VG og Samfylkingar í ríkisstjórn að skjóta traustari stoðum undir hagkerfi og heimsmynd íslensku valdastéttarinnar, eins og virðist vera að gerast, en er vonandi missýn.
Hlutverk ykkar er að opna allt sem lokað var og koma á virkara beinu lýðræði því aðeins það skilur valdastéttin íslenska. Hún veit sjálf hve fámenn hún er; lýðræðið, þar sem hver hefur sitt atkvæði er hættulegast fyrir valdastéttina íslensku. Ólafur Ragnar Grímsson vissi hvað hann söng,
kv.
Ólína