Fara í efni

RÚV OHF OG FLOKKSHESTARNIR Í VALHÖLL

 

RÚV OHF OG FLOKKSHESTARNIR Í VALHÖLL

Í þeim sviptingum sem nú standa yfir er því gefinn lítill gaumur sem er að gerast á fjölmiðlamarkaði. 24stundir hafa lagt upp laupana, Fréttablaðið og Morgunblaðið eru komin í eina eigendasæng en óljóst er svo aftur um eignarhaldið á þeirri sæng.
Tími flokksblaðanna hafði ýmislegt til síns ágætis. Þá áttu stjórnmálaflokkarinr greiða leið inn í fjölmiðlaumræðu og sjónarmið þeirra komu fyrir bragðið alltaf fram.
Íslenskir prent-fjölmiðlar hafa verið ólíkir blöðum í grannlöndum okkar  að því leyti að þeir hafa verið öllum opnir hvaða varðar birtingu greina og vega aðsendar greinar eflaust meira en gerist almennt í erlendum dagblöðum, til dæmis á Norðurlöndunum. Þetta er mikilvægt og á að meta að verðleikum.
Hitt er svo annað mál að ritstjórnarvaldið og þar með fréttamiðlunin er á hendi ritstjórna sem ráðnar eru af eigendum.
Við samþjöppunina sem á sér stað í blaðaheiminum þessa dagana vex ábyrgð ritjórna blaðanna. Á þeirra valdi er  frá hverju er sagt og hvernig, við hverja er rætt og hverja ekki. Gagnvart öllu þessu Þarf almenningur að vera vakandi því að á herðum okkar allra hvílir sú skylda að veita fjölmiðlunum aðhald  og hvetja þá til dáða.
Stöð 2 og Bylgjan tengjast sömu samsteypunni og blöðin. Stendur þá eftir Ríkisútvarpið ohf. Sú stofnun er háð fjárveitingarvaldinu og þar með stjórnarmeirihlutanum hverju sinni. Vissulega átti það við um Ríkisútvarpið fyrir hlutafélagavæðingu einnig. Sú breyting hefur hins vegar orðið á að tengslin við Alþingi hafa verið veikt og völd ráðherra og útvarpsstjóra undir ráðstjórn ráðherra styrkt að sama skapi. Þetta kom óneitanlega upp í hugann þegar ég fylgdist með fréttastofu Sjónvarps segja frá Valhallarfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina. Þar las Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins upp skeyti til konu sinnar frá aðdáanda. Ég sá ekki betur en hann kæmist við. Í skeytinu var forsætisráðherrafrúnni þakkað að lána þjóðinni afnot af sögumanni, forsætisráðherranum, honum Geir H. Haarde. Eftir að Geir hafði lesið lofgjörðina brutust út mikil fagnaðarlæti flokkshestanna. Fréttin dó svo út og rann saman við ánægjubros fréttaþula.
Er ekki rétt að vinda ofan af hlutafélagavæðingunni hið bráðasta?
Með bestu kveðju,
Haffi