Fara í efni

RÚV og drónaflugið

Á mánuudagskvöld 22. september flugu nokkrir drónar yfir Kastrupflugvöll við Kaupmannahöfn sem truflaði allt flug þar í fjórar klukkustundir. Reyndar voru aðrir yfir Gardemoen í Noregi líka, og síðan voru drónar á lofti við a.m.k. fimm danska flugvelli á þriðjudagskvöld og álíka marga á miðvikudagskvöld. „Ekki er vitað hvaðan þeim var flogið og hvert þeir fóru svo,“ sögðu sjónvarpsfréttirnar um Karstup-drónana. Það var sem sé óljóst hverjir báru ábyrgð á drónafluginu, og engin sönnunargögn hafa birst þarum síðan.

Það er heldur ekkert atriði að sýna fram á hver beri ábyrgð, það er forsenda sem menn gefa sér fyrirfram, að það voru Rússar. Hitt er aðalatriði hvernig svona atburður er notaður, hvernig við erum upplýst um hann, t.d. hér á Íslandi. Ég ætla að gera minni háttar úttekt á því, og halda mig eingöngu við fréttir RÚV af málinu, fyrst og fremst Kastrup-drónunum.

Í hádegisfréttum á þriðjudag 23. september var talað við Sigríði Björk ríkislögreglustjóra sem sagði: „Þeir sem stóðu fyrir drónafluginu hljóta að vera fjársterkir, ríki eða glæpahópur... Þetta er hluti af þessum fjölþátta ógnum líklega.“ Að því sögðu fór fréttamaður RÚV að draga sínar eigin ályktanir: „Enn er óljóst hver var að verki, en Rússar hafa rofið lofthelgi nokkurra ríkja og gert það ítrekað síðustu daga, vikur og jafnvel ár.“

Dagur leið fram á kvöld með drónaflug í Danmörku sem aðalfrétt í útvarpi. Helmingur sjónvarpsfrétta klukkan sjö var svo helgaðar málinu. Nú var efnið mjög sótt í Danmarks Radio. Þar var rætt við Mette Frederiksen forsætisráðherra. „Þetta er alvarlegasta árás á lykilinnviði Danmerkur nokkru sinni“ sagði forsætisráðherrann. Ennfremur: „Það er ekki hægt að líta á þetta einangrað frá því sem er að gerast í Evrópu.“ Þá var Drejer, yfirmaður dönsku leyniþjónustunnar (PET) spurður um málið og hann veitti greið svör: „Við [í Danmörku] erum í mikilli hættu gagnvart skemmdarverkum... þeir vilja sjá hvernig við bregðumst við ógn... svona lagað sjáum við í fjölþátta tilfellum [hybride hendelser].

Loks kallaði danska sjónvarpið til Andre Jakobsen sem titlaður var sérfræðingur í fjölþátta ógnum. Hann taldi ógnina alvarlega: „...að hluta til vegna tenginganna sem við sjáum við þá starfsemi sem kemur frá Rússlandi.“ Síðan bætti hann við: „Hver ætti það annar að vera?“ Einfalt mál sem sagt. Fréttamaðurinn á RÚV hélt nú áfram með fréttina og sagði: „Rússar þvertaka fyrir að bera ábyrgð á drónunum. Mörgum eru þó ofarlega í huga nýlegar árásir rússneskra dróna, t.a.m. í lofthelgi Póllands.“

Síðan var kallaður til hinn ómissandi stríðssagnfræðingur Íslands, Erlingur Erlingsson. Hann var spurður hver væri líklegur tilgangur þessara árása. Erlingur Svarar:

Í þessu tilfelli þá er markmiðið líklega að valda ákveðnum glundroða og tjóni, og kannski senda þau skilaboð að stjórnvöld geti ekki fyllilega gætt öryggis innviða og borgaranna, og þetta bergmálar það sem Rússar gerðu í Póllandi.

Rússar vildu sem sagt senda NATO-ríkjum þau skilaboð að varnir þeirra væru lélegar (undirskilið, þið verðið bæta þær af því við erum að fara að koma!).

Þá var komið að íslenska utanríkisráðherranum, Þorgerði Katrín talandi frá New York. Hún sagði: „Þetta er að færast nær, við þurfum að vera við öllu búin... Það er ekki vitað hvort þetta eru Rússar, Kínverjar eða aðrir, en alveg ljóst að Rússar munu nota þessi tilvik til að auka enn frekar á óvissu og óöryggi og, eins og ég segi, þetta þéttir bara raðir innan NATO.“

Er þá ekki tilgangi Rússa náð með þessum „skilaboðum“, samkvæmt Erlingi, að skapa óöryggi, glundroða út af rússneskri „ógn“, sýna NATO-ríkjum að þau verði að bæta varnir sínar? En sjá Rússar sér hag í því? Órökrétt. RÚV spurði aldrei slíkrar spurningar. RÚV spurði heldur aldrei um sannanir.

Þetta var nefnilega ekki frétt, því síður upplýsing, frá RÚV. Þetta var yfirlýsing og hún hljóðaði svo: Rússaranir koma!! Annað ekki.

 

Hugleiðing: Er líklegt að það séu Rússar?

Einu rökin sem borin voru á borð í fréttum RÚV og áttu að benda til að drónarnir á Kastrup kæmu frá Rússlandi voru þau að þetta hlyti að tengjast því sem „hefur verið að gerast í Evrópu“, einkum var bent á drónaflug í Póllandi 12 dögum fyrr, þann 10. september.

Nítján drónar ku þá hafa flogið inn yfir landamæri Póllands. Fjórir þeirra voru skotnir niður af herflugvélum NATO (tölurnar eitthvað á reiki), en hinir hurfu til baka án þess að ráðast á pólsk skotmörk. Pólskir skoðunarmenn sögðu að brak þeirra niðurskotnu væri rússneskt (Hvítrússar sögðust reyndar sama dag hafa skotið niður nokkra dróna sem hefðu villst þangað frá Úkraínu). Pólski utanríkisráðherrann sagði að þetta væri „vísvitandi árás“ Rússa á Pólland. Tusk forsætisráðherra sagði þó seinna að drónarnir hefðu verið óvopnaðir. Rússneska varnarmálaráðuneytið hafnaði því algjörlega að eiga drónana, og fór fram á að funda með pólskum varnaryfirvöldum um málið, sem ekki var þegið. Hin herskáa evrópska pressa fór í hæsta gír og kallaði atvikið „gríðarlega alvarlega árás“ á NATO-ríki og merki um að Úkraína væri bara fyrsta stopp Rússa í herför þeirra til vesturs. Nú væru þeir að „kanna varnir og viðbrögð Evrópu“. Drónaatvikið í Póllandi skildi eftir stórt spurningarmerki, og var alveg jafn dularfullt og hitt sem varð í Danmörku.

Fréttirnar sýna okkur ekki neitt um hver ber ábyrgð á drónunum, hvorki í Danmörku né Póllandi. Engin sönnunargögn hafa borist. En fjölmiðlarnir okkar biðja ekki um sönnunargögn. Vissar forsendur er hægt að gefa sér fjandakornið! Og rétt eins og danskir og evrópskir miðlar, bendir RÚV á Rússa, „Rússarnir koma!“ af því að „Hver ætti það annar að vera?“

 

Qui bono? og geopólitíska myndin

Öll sönnunargögnin vantar. Ef maður er ekki í stríðsæsingakórnum, ef maður efast, þá er oft gagnlegt að spyrja hverjum svona atburðir gagnist. Á latínu er það „Qui bono?“ Þessu er til að svara að atburðirnir við Kastrup og víðar teikna sig inn í stóra geópólitíska mynd sem blasir við okkur nú um stundir.

Á þeirri mynd sjáum við úkraínsk stjórnvöld sem gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga NATO inn í átökin við Rússland. Það skilst vel, Úkraínuher er aðframkominn, Zelensky ætlar ekki að semja við Rússa, og gott væri þess vegna að draga fleiri stuðningsaðila og fleiri lönd inn í bardagann. Fyrst og fremst NATO. Ennfremur sjáum við Bandalag viljugra í Evrópu (Coalition of the willing, 31 ríki) sem einnig hefur tekið stefnuna að semja ekki, vill umfram allt auka hernaðarstuðninginn, auka þátttöku NATO, gera þannig Úkraínu kleift að berjast áfram (dönsk stjórnvöld eru þar með þeim herskáustu). Nýja stjórnin í Washington hefur á hinn bóginn marglýst yfir að hún þurfi nauðsynlega að beita sér betur gegn Kína, þurfi því að losa sig út úr Úkraínuverkefninu, enda ráði Evrópa við það. Evrópuveldin eru afar ósátt við það og æpa nú mjög á „pabba“ sinn að „fara ekki“. Rússar hafa að sínu leyti háð allt Úkraínustríðið til að halda NATO frá sínum dyrum. Augljóslega hafa þeir alls enga hvata til að láta Úkraínustríðið breiðast út til fleiri landa, draga fleiri lönd inn í það stríð.

Það er samt ýmislegt í fréttum RÚV af málinu sem hljómar sennilega: að atburðirnir við Kastrup tengist hliðstæðum atburðum í Evrópu, svo sem í Póllandi, að drónarnir séu háþróaðir og þeim faglega stjórnað og að líklega sé ríki á bak við þá frekar en hobbýmenn, að flýgildum þessum sé ætlað að vekja ótta og ringulreið. Allt er það mjög líklegt.

En að Rússar standi á bak við þetta, til að breiða stríðið út til annarra landa en Úkraínu, til NATO-landa, það er annað mál. Fjölmiðlar sem ímynda sér að Rússar hafi áhuga á því standast ekki greindarpróf, svo fjarstæðukennt er það. Þetta snýst hins vegar líklega ekki um greind. RÚV og hinir miðlarnir eru samsekir stjórnvöldum í stríðsæsingaráróðri. Tilskipun dagsins er stríðsæsing, og að því leyti stendur RÚV sig vel.

Ég spái því að drónaflugið verði ekki upplýst af því það eigi ekki að upplýsa það. Tími hinna „fölsku flagga“ sýnist enn upp runnin. Muna menn „gereyðingarvopnin“ í Írak? Ég óttast að stærri sviðssetningar séu framundan.

Greinin birtist einnig á veftímaritinu Neistum, það er neistar.is.