Fara í efni

Ruslfæðisauglýsingar bannaðar í Bretlandi – prófmál í uppsiglingu?

Bretar eru að þyngjast og sífellt fjölgar þeim sem þjást af offitu í Bretlandi. Frá þessu sagði í fréttum útvarps í dag. Þetta er rakið til mataræðis og þá sérstaklega þess sem kallað er af mjög takmarkaðri virðingu ruslfæði. Hér mun vera átt við gosdrykki, sælgæti, og hamborgara svo eitthvað sé upp talið af því sem tilgreint var í útvarpsfréttinni.

Það er ágætt framtak hjá bresku stjórninni að vilja stemma stigu við matarvenjum sem eru þjóðinni sannanlega mjög skaðlegar. Þetta gæti hins vegar orðið skemmtilegt pólitískt prófmál. Bretar eiga að vísu ekki stjórnarskrá en einhvers staðar hefði verið sagt að íhlutun af þessu tagi í markaðinn bryti í bág við stjórnarskrá, eignarréttinn, jafnræði á markaði, meðalhóf og öll þessi hugtök sem löngu eru orðnir gamlir kunningjar Íslendinga. Og hvað mun Samkeppninsstofnun þeirra Breta segja, að ekki sé nú minnst á markaðslögregluna frá Brussel, þá hina sömu og er nú að kanna hvort Íslendingum sé leyfilegt að reka Ríkisútvarp?

Prófmálið kæmi til með að snúast um hvort megi sín meira, lýðræðislegur vilji og heilbrigð skynsemi annars vegar eða markaðslögmálin hins vegar.

Svo enginn velkist í vafa um mína afstöðu, þá held ég með lýðræðinu og skynseminni. Ég neita því þó ekki að ég óttast að kókið og karamellan hafi betur.