Fara í efni

RÍKISSTJÓRNIN OG KJARAMISRÉTTIÐ

Valgerður Sverrisdóttir kom fram á Morgunvakt RÚV í morgun til að fjalla um launagjána sem myndast hefur í íslensku samfélagi. Í viðtalinu kom margt athyglisvert fram og sumt vægast sagt furðulegt.
Ráðherrann reynir að þvo hendur ríkisstjórnarinnar af öllu því sem er að gerast. Valgerður Sverrisdóttir segir að stjórnvöld geti ekki haft áhrif á launakjörin í landinu, einvörðungu sett almenn lagaákvæði sem lúta að kjaraumhverfinu.
Þetta er að vísu ekki rétt því ríkið semur við starfsmenn sína og eins og fram hefur komið í opinberri umræðu hafa samningar þeirra sem hærri hafa launin hækkað meira en hinna sem eru á lægri launum. Ummæli Valgerðar Sverrisdóttur gefa líka tilefni til að skoða þau lagaákvæði sem ráðherrann vísar í og lúta að kjaramálum. Þegar dæmið er gert upp lítur það svona út:

1)      Launastefna ríkisstjórnarinnar hefur leitt af sér aukinn launamun.

2)      Ríkisstjórnin hefur breytt opinberum stofnunum í hlutafélög. Það hefur haft þær afleiðingar að launamunur innan þeirra hefur aukist og launaleynd að sama skapi. Réttindi almenns starfsfólks, lífeyrisréttur, veikindaréttur og margvísleg önnur réttindi hafa verið skert með þessum lagabreytingum.

3)      Með hlutafélagavæðingu heyra opinberar stofnanir ekki lengur undir ýmis lög um opinbera starfsemi svo sem lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, stjórnsýslulög, upplýsingalög o fl. Þannig eru möguleikar almennings á því að fylgjast með hvað gerist hjá þeim innandyra litlir sem engir. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um „opinber hlutafélög“ sem lagt hefur verið fram á Alþingi er fullkominn kattarþvottur hvað þetta varðar. Samkvæmt því skulu aðalfundir opnir og fundargerðir opinberar en launaleynd skal engu að síður gilda.

4)      Ríkisstjórnin hefur brugðið á það ráð með margrómuðum „lagaákvæðum“ Valgerðar Sverrisdóttur að taka háttsetta stjórnendur út úr hinu opinbera launakerfi og færa þá í átt til launaleyndar. Annars vegar hefur það færst í vöxt að embættismenn eru færðir undan kjarasamningum og undir ákvarðanir kjaranefndar. Það dugir hins vegar ekki til fyrir þá sem ætlunin er að hafa á enn hærri kjörum en kjaranefnd  þóknast að ákvarða og skulu þeir lögum samkvæmt nú fá þau kjör sem um semst við þá í samningum við stjórnir viðkomandi stofnana. Síðasta dæmið um þetta er forstjóri Fjármálaeftirlitsins, en stjórn stofnunarinnar á að ákvarða launakjör hans. Þetta er dæmi um lagaákvæði sem Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra, hefur beitt sér fyrir og stuðla í senn að hærri launum forstjóra og leynd yfir kjörum þeirra. Þegar þessum lagabreytingum í átt til ofurkjara og launaleyndar var andmælt á þingi var sagt að þessir menn yrðu að vera á samkeppnishæfum kjörum í sínu umhverfi!

En hyggjum nánar að fyrrnefndum ummælum Valgerðar Sverrisdóttur á Morgunvakt Ríkisútvarpsins. Hér eru nokkur morgunkorn Valgerðar:

  Um hið Nýja Ísland launamisréttis:"Já, ég er náttúrulega hissa.  Og ég geri mér grein fyrir því að fólki ofbýður dálítið að þetta skuli vera orðið hið nýja Ísland að laun forstjóra séu orðin svona há.  Og það er ósköp eðlilegt að fólki ofbjóði en hins vegar þá er þetta náttúrulega mál sem að, sko, stjórnmálamenn geta ekki haft áhrif á að öðru leyti en því að setja ákvæði í lög eins og ég mun beita mér fyrir…"

 Vandinn, að dómi Valgerðar, er ekki misréttið heldur upphlaupin sem verða þegar fólk eygir sannleikann: " Nú, svo er það það sem hefur verið bent á að þarna sé um fyrirtæki að ræða sem sé að starfa á alþjóðamarkaði, og það má rétt vera að svo sé, og er rétt, en engu að síður að þá þarf að koma alla vega þessum málum í þann farveg að það verði ekki þetta upphlaup í þjóðfélaginu þegar eitthvað svona kemur upp og þá held ég að ráðið sé það að hluthafarnir beri þá ábyrgð.  Að það séu hluthafar í viðkomandi fyrirtæki sem beri ábyrgð…" 

Fjölmiðlar fá að sjá fundargerðir í "opinberum hlutafélögum" og tæknivæðingin opnar ýmsa möguleika nema náttúrlega verður að vera launaleynd:  …" Þannig að ég held að það sé enginn vafi á því að þetta eykur aðgengi að viðkomandi fyrirtækjum og þar með auknar upplýsingar til þjóðarinnar í gegnum fréttamenn og á annan hátt eins og tæknivædd þjóð getur boðið upp á nú á dögum…Ja, ég ætla ekkert að fara nákvæmlega út í þetta.  Þetta eru náttúrulega hlutir sem á eftir að ræða líka á Alþingi þannig að það er ekki hægt að fullyrða í dag nákvæmlega hvernig þetta endar sem lög…En hvað varðar hinn almenna launamann að þá held ég að það sé ekki hægt að fullyrða neitt um það annað en að það gildir sem að almennt gildir í landinu og það ríkir hér ákveðin launavernd eða vernd um upplýsingar sem varða laun og það mun, eftir því sem ég reikna með, gilda líka um starfsmenn þessara fyrirtækja.." (Valgerður, hjá hinu opinbera gildir ekki launaleynd lögum samkvæmt, varstu nokkuð búin að gleyma því?)

En er þetta ekki bara gott – eða þannig? "Það má alveg búast við því að það verði hér ákveðnir einstaklingar á mjög háum launum og… já, ég get ekki séð annað en að það verði og kannski á maður heldur ekki að öllu leyti að líta á það sem neikvætt að við Íslendingar eigum líka starfsmenn sem að… og fyrirtæki sem að eru það sterk að þau eru að starfa á alþjóðagrundvelli og alþjóðamarkaði og þ.a.l. séu með forstjóra á háum launum…"

Já eða þannig… það er áhugavert að hlusta á ráðherra Framsóknarflokksins tjá sig um kjaramál og jöfnuð. Skyldi þessi boðskapur verða á flettiskiltunum og í sjónvarpsauglýsingunum fyrir næstu kosningar?

 Viðskiptaráðherra segist vera svolítið hissa á hinu Nýja Íslandi launamisréttisins. Skyldi hún vera jafn hissa á þeim sem hafa tekið hvað virkastan þátt í að móta það, eins og til dæmis viðskiptaráðherranum…?

Nú er þjóðin að verða vitni að afleiðingum einkvæðingar- og stóriðjustefnunnar, kjaramisrétti, ofþenslu, hágengi, ruðningsáhrifum, flótta fyrirtækja úr landinu og öðrum afleiðingum þessarar stefnu. Þeir sem veitt hafa stjórnarstefnunni  brautargengi eru margir undrandi og hissa eins og Valgerður ráðherra ( ofbýður ekki "dálitið" eins og henni, heldur einfaldlega ofbýður). Er ekki tími kominn til að hætta að vera hissa og horfast þess í stað  í augu við vandann; beina sjónum að þeim stjórnmálamönnum sem hann hafa  skapað og reyna að finna á honum raunhæfar lausnir?