Fara í efni

RÍKISSTJÓRNIN ER KLOFIN, SJÁLFSTÆÐIS-FLOKKURUNN ER KLOFINN

Hvað hét aftur flokkurinn sem áratugum saman hældi sér af því að vera festan uppmáluð í íslenskum stjórnmálum? Flokkurinn sem hélt því fram að hann væri festan sjálf af því að hann væri svo stór að með honum væri hægt að mynda tveggja flokka stjórn með næstum hverjum sem væri hinna þriggja aðalflokkanna. Var það kannski Sjálfstæðisflokkurinn?

Hvað hefði sá Sjálfstæðisflokkur sagt um ríkisstjórn þar sem helmingur stjórnarinnar er í raun á móti ríkisstjórninni? Ætli Sjálfstæðisfestan mikla hefði ekki kallað það upplausn eða hvað? Glundroða? Það hlýtur að líta ákaflega undarlega út þegar Samfylkingin berst opinskátt innan úr ríkisstjórninni fyrir aðild að ESB á sama tíma og þjóðin sveitist blóðinu við að  leysa ferlegustu vandamál sem hún hefur komist í tæri við á lýðveldistímanum. Erlendis taka menn mark á ráðherrum - jafnvel á Björgvin G Sigurðssyni.

En menn geta líka spurt: Hvers konar drengskapur er það í  samstarfi sem Samfylkingin sýnir Sjálfstæðisflokknum og þó einkum formanni hans sem hefur verið einn í stafni þjóðarskútunnar í ægibrimi undanfarinna vikna með því að vera sí og æ að tönnlast á aðild að ESB sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur verið á móti?

En hér með er ekki öll sagan sög. Það er ekki nóg með að Sjálfstæðisflokkurinn hafi enga stjórn á samstarfsflokknum, enga eða minna en enga. Þar ríkja greinilega hvorki heilindi á milli né drengskapur.

Hitt er þó enn magnaðra að átök hafa blossað upp opinberlega milli formanns og varaformanns  Sjálfstæðisflokksins. Varaformaðurinn vill ganga í Evrópusambandið. formaðurinn ekki ganga í Evrópusambandið, en varaformaðurinn getur skít í formanninn og gengur málefnalega séð í hinn stjórnarflokkinn.

Enn magnaðra er það þegar varaformaður Sjálfstæðisflokksins leggst gegn vaxtahækkun Seðlabankans sem er þó á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins alls og forystu hans.  Hvers konar heilindi eru þetta í samstarfi í æðstu forystu Sjálfstæðisflokksins?

Og þó tekur steininn úr þegar bankastjóri Seðlabankans rís upp til varnar og birtir opinberlega leyniplagg Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem kemur það sem allir vita að ÖLL forysta Sjálfstæðisflokksins ber auðvitað - eins og Samfylkingin - ábyrgð á samskiptunum við IMF. Greinilegt er að varaformaður Sjálfstæðisflokksins er að berjast til valda gegn formanninum og sérstaklega er henni greinilega uppsigað við Árna Mathiesen fjármálaráðherra. Þeir sem eru komnir um og yfir miðjan aldur muna átök Geirs og Gunnars. Nú heitir varaformaðurinn að vísu Þorgerður.

Og hér áðan var spurt: hvernig lítur það út erlendis þegar helmingur ríkisstjórnarinnar talar gegn ríkisstjórninni í Evrópumálunum? En hvernig lítur það út gagnvart umheiminum meðal annars Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þegar leiðtogar stjórnarflokksins ragmana fram upplýsingar úr leyniplöggum? Er svoleiðis ríkisstjórn treystandi?

Vonandi verður þetta upplit á stjórnvöldum Íslands ekki til þess að skaða þjóðina út á við á þeim tímum sem hún þarf afla sér trausts fremur en nokkru sinni fyrr.

Sigurður Bjarnason