Fara í efni

Ríkisstjórn Íslands og aðrir sem minna mega sín

Birtist í Mbl
Ríkisstjórn Íslands hefur valið sér andstæðing. Sá andstæðingur heitir Öryrkjabandalag Íslands, samtök fólks sem tapað hefur starfsorku, að hluta til eða öllu leyti, vegna veikinda eða fötlunar. Flestir þessara einstaklinga eiga það sammerkt að hafa lítinn framfærslulífeyri. Þegar þetta tvennt kemur saman, fötlun og fátækt, leita menn eftir því sem talið er vera viðeigandi lýsingarorð eða heiti. „Þeir sem minna mega sín“ eða jafnvel „lítilmagnar“ eru lýsingarorð og viðurnefni sem iðulega eru viðhöfð um öryrkja.

Nú kann vel að vera að í röðum öryrkja séu einhverjir, einsog í öllum þjóðfélagshópum, sem minna mega sín einsog kallað er eða eru ekki mikils megnugir. Til forna skildu menn þó að sá sem væri veikur á einu sviði gæti komið að gagni á öðru, samanber speki Hávamála, haltur ríður hrossi, hjörð rekur handarvanur.

Nafngiftir og lýsingar af þessu tagi orka þó allar mjög tvímælis í samfélagi sem vill kenna sig við samhjálp og mannréttindi enda iðulega skilin sem niðrandi af hálfu öryrkja. Hitt orkar hins vegar ekki tvímælis að raðir Öryrkjabandalags Íslands skipa kröftugir og sterkir einstaklingar og forysta bandalagsins hefur komið fram af mikilli einurð og festu í baráttu fyrir þeirri mannréttindakröfu að öryrkjum yrði tryggður lágmarkslífeyrir til framfærslu. Eftir þrotlausa baráttu ákvað Öryrkjabandalagið að skjóta deilumáli sínu við ríkisvaldið til æðsta dómstóls landsins. Hæstiréttur Íslands kvað upp úr með dómi sem segir að skerðing örorkubóta með hliðsjón af tekjum maka einsog tíðkast hefur um árabil sé ekki í samræmi við stjórnarskrá Íslands og mannréttindasáttmála sem við eigum aðild að. Eftir að þessi hæstaréttarúrskurður lá fyrir ætluðu flestir að öryrkjum yrðu greiddar að lágmarki 51 þúsund krónur á mánuði óháð hjúskaparstöðu. Ríkisstjórnin var ekki á þessu máli. Hún skipaði sérstakan háyfirdóm yfir Hæstarétt. Hann ráðlagði ríkisstjórninni að lækka þessa upphæð niður í 43 þúsund, taldi að þar með væri ríkisstjórnin sloppin fyrir horn.

Svo verður þó ekki. Almannasamstök í landinu, verkalýðshreyfingin, BSRB, ASÍ, BHM og Kennarasamband Íslands ásamt Landssambandi eldri borgara hafa lýst yfir samstöðu með öryrkjum. Allir skynja að öryrkjar hafa nú dregið mannréttindafána að húni. Undir þann fána mun þorri landsmanna skipa sér. Við erum stolt af því að skipa okkur í baráttusveit undir sóknarfánum öryrkja, þess fólks sem sýnt hefur siðferðilegan styrk sinn og að það kann flestum öðrum betur að bera höfuðið hátt. Öllum má vera ljóst að sú ríkisstjórn sem nú situr er mjög veik. Þess vegna valdi hún sem andstæðing þann sem hún taldi veikan fyrir. En vopnin hafa snúist í hendi hennar. Hinn veiki reyndist sterkur. Hann reyndist sterkur því hann átti sér góðan málstað og var reiðubúinn að berjast fyrir honum. Á komandi dögum mun reyna á siðferðisþrek alþingismanna sem mynda stjórnarmeirihlutann. Mun þeim auðnast að bera höfuðið hátt, koma fram af sjálfstæði og reisn eða munu þeir láta skipa sér fyrir verkum? Þá myndi sannast að þar færu lítilmagnar í andanum, þeir einstaklingar sem raunverulega minnst mega sín í okkar samfélagi. Auðvitað bæri okkur þá að sýna samúð. Ég óttast að okkur yrði ekki öllum sú mildi gefin.