Fara í efni

RÉTTLÆTING RÚV

Víkingur Halla Þorst frá Hamri - RÚV
Víkingur Halla Þorst frá Hamri - RÚV


Um áratugi hafa geisað deilur um Ríkisútvarpið, sem nú heitir RÚV ehf. sem kunnugt er.
Fyrr á tíð var Ríkisútvarpið eitt um hituna á ljósvakanum eins og það var kallað. Endalaust var hægt að fjalla um dagskrána og hvernig til hefði tekist, vel eða illa eftir atvikum. Síðan var einokun aflétt og fleiri útvarps- og sjónavarpsstöðvar komu til sögunnar. Þá fór umræðan smám saman að taka breytingum:  Átti ríkisrekið útvarp yfirleitt rétt á sér, var nú spurt.
Alla tíð hef ég varið RÚV.  Ekki hefur sú vörn alltaf verið auðveld. Sjálfur hef ég oft verið mjög gagnrýninn á Ríkisútvarpið, ekki síst sjónvarpsdagskrá með amerískum aulamyndum eða þá svo yfrigengilegu ofbeldisefni að þurft hefur að vara sérstaklega við því að börn horfi á. Fréttastofurnar hafa mér líka oft þótt skorta gagnrýnið bit, svo ekki sé dýpra tekið í árinni. Margt hefur þó verið vel gert.  Og sumt afburða vel.
En það á líka við um aðrar stöðvar. Þar hafa oft verið sýnd prýðileg tilþrif.
Það sem gerir mig hins vegar að fylgismanni RÚV eru þau Þorsteinn frá Hamri, Halla Oddný Magnúsdóttir og Víkingur Heiðar Ólafsson og þeirra líkar. Ég nefni þau sérstaklega vegna þess að þau hafa nýlega verið með þjóðinni á vegum RÚV, Þorsteinn frá Hamri í útvarpi hin í Sjóvarpinu. Þorstein  hlustaði ég á um síðustu mánaðamót. Þá var endurtekinn þáttur í umsjá Eiríks Guðmundssonar frá árinu 2008 en Víkingur Heiðar og Halla Oddný hafa birst okkur í Útúrdúr þáttum sínum tvö sunnudagskvöld í röð. Þetta hafa verið einstaklega skemmtilegir þættir um tónlist, bæði uppfræðandi og líflegir.
Útvarps- og sjónvarpsefni á borð við þetta réttlætir tilveru RÚV.
RÚV er kjölfesta, Rúv er safn og RÚV er lifandi miðill. (Hvers vegna ekki er hægt að hafa þætti aðgengilega á netinu lengur en þann mjög svo  takmarkaða tíma sem boðið er upp á er mér hulin ráðgáta).
Viðtal við Þorstein frá Hamri: http://www.ruv.is/sarpurinn/mynd-af-listamanni/31082013-0
og hér eru sjónvarpsþættirnir:  http://ruv.is/sarpurinn/uturdur/15092013-0  og http://ruv.is/sarpurinn/uturdur/22092013