Fara í efni

RAUNHAGKERFI?


Okkur sem ekki erum í „raunhagkerfinu"  brá í brún þegar formaður bankaráðs Landsbankans - sem er í eigu þóðarinnar - sagði í fréttum RÚV í kvöld að bankastjóri bankans væri ekki með eins há laun og bankastjórar annarra banka og stórfyrirtækja í „raunhagkerfinu".  Nýlega vorum við upplýst um að viðkomandi stjórar eru með himinháar tekjur - langt umfram það sem sanngjarnt má heita.
Þetta gerði það að verkum að Landsbankinn væri ekki samkeppnisfær, sagði bankaráðsformaðurinn, almannaeignarhaldið hamlaði samkeppnisfærninni.
Svona var talað í aðdraganda hrunsins - og hér fáum við enn eina staðfestinguna á því að þankagangur hrunáranna er enn með okkur.
Á sínum tíma var okkur sagt að stjórnendur bankanna þyrftu að vera á tugmilljóna launum á mánuði, með milljóna bónusa - sem síðar kom í ljós að voru reyndar milljarðar! Að sögn var allt þetta gert til að gera bankana samkeppnisfæra og að gera þeim kleift að taka þátt í hinu alþjóðlega „raunhagkerfi".
Allt reyndist þetta tálsýn.
Reyndar vefjast fyrir mér skilgreiningar á raunhagkerfi. Hvort til er eitthvað sem rís undir slíkri skilgreiningu. Er það vermætaskapandi framleiðslukerfi? Eru bankar undir þeirri regnhlíf en ekki endurhæfingardeild Landspítalans við Grensás?
Það er eitthvað mikið galið og bjagað við þennan hugsunarhátt. Hvar liggur ábyrgðin á þessari raunveruleikabjögun? Þar eru stjórnvöld að sjálfsögðu ekki undanskilin, hvorki löggjafinn né framkvæmdavaldið. En ábyrgðin hvílir víðar. Hún hvílir hjá öllum þeim sem taka þátt í að búa hér til að nýju kerfi sem mismunar fólki. Þörf er á því að við tökum öll höndum saman um að breyta hugsunarhætti sem kallaði yfir okkur efnahagslegt  og siðferðilegt hrun.
Hér gegna einnig fjölmiðlar höfðumáli. Að þeir kunni að skilja kjarnann frá hisminu og að veita verðugt málefnalegt aðhald; að þeir gleymi því ekki að hér varð hrun. Og hvers vegna það varð!
Frétt RÚV:
http://dagskra.ruv.is/ras1/4537017/2011/04/28/4/