Fara í efni

RANNSÓKNAR ER ÞÖRF!

Sæll Ögmundur.
Ég heimsæki eldri borgarana í Mosfellsbæ í hverri viku, alla vega yfir vetrarmánuðina, les fyrir þá og spjalla. Þetta góða fólk hefur mikla sögu að segja og man eðlilega tímana tvenna. Þetta er sú kynslóð sem tók við af frægri „aldamótakynslóð" og færði okkur enn nær nútímanum. Þetta fólk sparaði við sig alla sína búskapartíð og þegar tíminn var kominn lagði það nánast allan sparnað sinn fyrir til að fá húsnæði á dvalarheimili.
Sem dæmi frétti eg af einum ráðsettum góðum bónda undan Esjuhlíðum sem lagði 35 milljónir sem hann fékk fyrir jörðina sína. Allt staðgreitt svo hann gæti fengið góða íbúð til að búa í ásamt konu sinni uns kallið kemur.
Börn þessara látnu hjóna hafa ekkert fengið til baka eins og samningar þó kveða á um en nú mun íbúðin vera leigð fyrir rúmar 200.000 á mánuði. Allt fer í Eir hítina sem Sjálfstæðisflokkurinn skilur eftir eins og hvern annan munaðarleysing.
Gömul kona var með bréf frá innheimtulögfræðingi sem hún vildi sýna mér. Hvatti eg hana að bera efni bréfsins undir lögfræðing Félags eldri borgara sem ber að veita skjólstæðingum sínum slíka þjónustu.
Í ljós kemur að eldri borgarinn hafi greitt stórfé fyrir að búa í Eir og þarna voru einhverra viðbótagreiðslna krafist. Nú er það svo að eldra fólkið er ekki líklegt að sýna varkárni í fjármálum og síst af öllu áreitni frá innheimtulögfræðingum sem eru þekktir fyrir að fara skemmstu leiðina eftir peningum. Það borgar oft aðeins til þess að fá frið. En það er sumum innheimtulögfræðingum ekki nóg, þeir færa sig jafnvel upp á skaftið og krefjast meira næst.
Eldri borgaranir eru auðveld bráð ágengra aðila sem leita með logandi ljósi eftir góðum greiðendum, jafnvel þó svo að krafan sé ekki allskostar rétt.
Fæ eg ekki betur séð en að til séu aðilar sem hafa þessa góðu samborgara sína að féþúfu. Ég hvatti konuna að hafa bein í nefinu, ítreka hvaða greiðslur hún hefur innt af hendi og þá í samræmi við gilda samninga.
Og Félagi eldri borgara ber að aðstoða þetta góða eldra fólk. Ég vona að þið á þingi gefið málefnum Félags eldri borgara betri gaum.
Það er fyllsta ástæða að krefjast opinberrar rannsóknar á fjárreiðum Eir og samskiptum við fyrri stjórnendur sem og þeirra sem nú ríkja þar hafi sú rannsókn ekki verið hafin.
Góðar stundir!
Guðjón Jensson