Fara í efni

RANGLÁT NIÐURSKURÐAR-STEFNA

Sæll Ögmundur.
Ég er ungur læknir og tilheyri þar með þessum hópi mjög vel stæðra samkvæmt þinni skilgreiningu. Ég er verulega ósátt við þá stefnu sem niðurskurður í heilbrigðismálum hefur tekið. T.d. eru læknar á Vestfjörðum að samþykkja að vera á bakvöktum án þess að fá greiðslu fyrir. Hvernig má það vera að það telst sanngjarnt? Hvers vegna eru alltaf skoðuð heildarlaun lækna þegar verið er að bera saman laun. Veit ráðherra hversu mikil vinna er bak við þessi laun og veit hann hve mikill hluti þeirrar vinnu er valkvæður. Ég er nú deildarlæknir og er skikkuð til að vinna yfirvinnu, ef læknir ræður sig í 100% vinnu er það vitað mál að hans vinnuskylda er mun meiri en það. 173 tíma vinna á mánuði hefur ekki verið á minni vinnuskýrslu í mörg ár og ekki er það sjálfvalið heldur skylda. Hvers vegna á að líta fram hjá öllum þeim árum sem hafa farið í að afla læknismenntunar, hvers vegna á að líta fram hjá þeirri ábyrgð sem læknar bera í störfum sínum. Telur ráðherra það eðlilegt að landsbyggðarlæknir sé bundinn í sínu héraði, ávallt reiðubúinn í útkall án þess að fá laun fyrir? Á að refsa fólki fyrir að afla sér langtímamenntunar. Á að refsa læknum fyrir að vera skyldugir að vinna yfirvinnu? Er það stefna þessarar ríkistjórnar að setja hátekjuskatt þannig að t.d. læknar sem eru skikkaðir til að vinna yfirvinnu verði um leið hegnt fyrir það? Með þessari stefnu verður hvati ungs fólks til að fara í langtíma nám sem er bæði dýrt og erfitt, horfinn. Vona að þú birtir þetta bréf.
Linda

Þakka þér bréfið Linda. Auðvitað duga engar alhæfingar. Vonandi er hér um að ræða tímabundinn niðurskurð. Því miður stendur valið á milli þess að allir taki á sig einhverjar skerðingar sem við höfum jú líka verið að gera í veðbólgunni - eða að við blasa fjöldauppsagnir. Jafnframt skipulagsbreytingum, lækkun á lyfjakostnaði og öðrum þáttum verður launasumman að rýrna eitthvað. Helst með kjarajöfnun. Verst af öllu er atvinnuleysið auk þess sem færra fólk þýrðir aukið álag á þá sem eftir sitja.
Með kveðju,
Ögmundur