Fara í efni

RAFORKUKERFI Í ALMANNAFORSJÁ TRAUSTARI EN MARKAÐSVÆDD KERFI SAMKVÆMT FITCH

Eitt helsta áhugamál ríkisstjórnarinnar er sem kunnugt er að einkavæða raforkukerfi landsmanna. Liður í þeirri viðleitni er stjórnarfrumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi um að gera Rafmagnsveitur ríkisins að hlutafélagi. Áður hafa ráðherrar lýst þeim ásetningi sínum að selja fyrirtæki í raforkugeiranum, þar með talið Landsvirkjun, (sjá t.d. HÉR). Gegn þessu er mikil andstaða í landinu og horfa menn til reynslunnar sem þegar er fengin af markaðsvæðingu kerfisins hér á landi, að ekki sé minnst á reynsluna af markaðsvæddu raforkukerfi erlendis. Þannig var haft á orði í Bandaríkjunum fyrir nokkrum misserum, þegar raforkukerfið brást í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna, að mikilvægt væri að menn drægju læradóma af reynslunni því á daginn  kom nefnilega að ljósin slokknuðu þar sem markaðslögmálin voru ráðandi en héldust logandi þar sem kerfin voru í almannaeign eða lutu ströngum reglum og aðhaldi frá samfélaginu.
Nú hefur matsfyrirtækið Fitch, sem nýlega kom við sögu í íslenskri efnahagsmálaumræðu, sent frá sér skýrslu þar sem fram kemur að markaðsvæddur raforkugeiri sé óáreiðanlegri og lakari en raforkukerfi á vegum samfélagsins. Þetta kemur fram í frétt á fréttavef BSRB en að öllum ólöstuðum hafa þau samtök fingurinn betur á púlsinum þegar almannaþjónustan er annars vegar en flestir ef ekki allir aðilar hér á landi. Sjá nánar umfjöllun um þetta efni HÉR.