Fara í efni

PRÓFDÓMARINN


Í gær ritaði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, útvarpsstjóra opið bréf  (sjá hér að neðan) og mótmælti því að Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi iðnaðarráðherra, væri látin ráða því að hún fengi ein að koma fram í Kastljósi  en Steingrímur hins vegar útilokaður að hennar kröfu. Páll Magnússon, útvarpsstjóri svaraði á vefsíðu Ríkisútvarpsins og var svarbréf hans birt þar  í heild sinni. (sjá HÉR). Ekki sá ég að bréf Steingríms fengi sömu meðhöndlun því aðeins sá ég vitnað til þess. Þótti mér þar með  Ríkisútvarpið falla í annað sinn á prófinu og látum við þá orðahnippingar og útúrsnúninga útvarpsstjórans liggja á milli hluta. Bréf hans byggði hins vegar að hluta á greinargerð Þórhalls Gunnarssonar, ritstjóra Kastljóssins. Hún var málefnaleg, þótt ekki þætti mér rök hans sannfærandi. Það er mitt mat, mín skoðun. Davíð Oddsson, seðlabankastjóri hefur aðra skoðun á þessu máli. Það er honum að sjálfsögðu frjálst að hafa og ekkert nema gott um það að segja ef ekki væri fyrir þær sakir að Ríkisútvarpið gerir hann að eins konar prófdómara í þessu máli. Þegar menn opnuðu vefsíðu Ríkisútvarpsins í morgun gat þar að líta flennimynd af Davíð Oddssyni. Fyrirsögn stórfréttar Ríkisútvarpsins var einkunnagjöf þessa merka álitsgjafa: Davíð Oddsson segir umræðu um Grímsskýrslu vera vitleysu.

Það er nefnilega það. Þessi skoðun Davíðs Oddssonar kemur mér ekkert á óvart og er í mínum huga engin frétt. Davíð Oddsyni þótti pólitískar aðfinnslur yfirleitt vera hrein vitleysa. Honum þótti líka fráleitt að aðrir stjórnmálamenn fengju að sitja með honum í fréttaþáttum. Þar vildi hann sitja einn. Fjölmiðlarnir létu það eftir honum. Beygðu sig og bukkuðu. Valgerður Sverrisdóttir hefur fetað í fótspor þessa lærimeistara síns. Hún gerir nákvæmlega eins og hann lagði fyrir. Og fyrir bragðið fær hún háa einkunn í pólitískri einkunnabók Davíðs Oddssonar.  Það fær útvarpsstjórinn að öllum líkindum líka. En hversu eftirsóknarvert skyldi það vera?

Það mega menn  vita að þessu máli er engan veginn lokið. Ég hef trú á því að almennt vilji fólk ekki að svona sé farið með útvarp allra landsmanna. Það er ekki ennþá búið að einkavæða þá stofnun. Og ekki mun það gerast átakalaust. 

Það er slæmt að Alþingi skuli ekki vera að störfum. En sem betur fer styttist í þingsetningu. Mér býður í grun að þessi mál eigi eftir að bera á góma í þingsölum.

Bréf Steingríms J.Sigfússonar:

Hr. útvarpsstjóri                                                                                                   31. ágúst 2006
Páll Magnússon

Opið bréf !

Ég tel rétt að deila með þér og öðrum þeim sem áhuga hafa reynslu minni af samskiptum við aðstandendur umræðuþáttarins Kastljóss í stofnun þinni í gær. Um kl. 10,00 í gærmorgun hringdi einn af stjórnendum Kastljóssins í mig og falaðist eftir mér í þáttinn þá um kvöldið. Ætlunin var að ég yrði þar ásamt Valgerði Sverrisdóttur fyrrv. iðnaðarráðherra til að ræða um meðferð ráðherrans og  ráðuneytisins á greinargerð Gríms Björnssonar um Kárahnjúkavirkjun og e.t.v. fleiri tengd atriði. Ég féllst fúslega á þetta enda ærin tilefni til að ræða málið. Það var síðan undir kvöld, nánar tiltekið um kl. 18,00 að við þáttarstjórnandinn töluðum aftur saman í síma og tjáði hann mér þá frekar daufur í dálkinn að því er virtist að ekki yrði af þessu. Ég skildi það þannig að umræðuefnið hefði verið tekið af dagskrá þáttarins og kvaddi við svo búið. Ég átti því á flestu öðru von en að frétta seinna um kvöldið að fyrrv. iðnaðarráðherra  hefði mætt ein í Kastljósið og flutt þar málsvörn sína óáreitt í einræðum. Þar vitnaði ráðherra m.a. ítekað í mig með ómálefnalegum hætti að mér fjarstöddum og gerði stjórnarandstöðunni upp hvatir í málinu.

Ég verð að segja útvarpsstjóri góður að ég veit ekki hvort þessi uppákoma, sem ég hef ærna ástæðu til að ætla að sé ekki einsdæmi, er verri og meira niðurlægjandi fyrir ráðherrann eða Ríkisútvarpið. Ráðherra sem ekki þorir að mæta stjórnmálaandstæðingum í rökræðum gefur auðvitað með því sjálfum sér og/eða málstað sínum falleinkunn. Hitt er líka ofboðslegt að verða vitni að því að Ríkisútvarpið skuli þjóna valdinu með þessum hætti og láta það eftir ráðherranum að ryðja andstæðingi í stjórnmálum og talsmanni ólíkra sjónarmiða út úr umræðuþætti. Til þess eins, og aðeins þess, að ráðherrann geti þar flutt sína aumlegu málsvörn án andsvara. Með þessu bregst RÚV að mínu mati skyldu sinni um að standa fyrir upplýstri umræðu þar sem gagnstæðum sjónarmiðum er gert jafn hátt undir höfði sbr. t.d. 2. og 3. málsl. 3. gr. útvarpslaga en þar segir eins og þú manst:

„Ríkisútvarpið skal halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Það skal gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.
Ríkisútvarpið skal m.a. veita almenna fréttaþjónustu og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.“

Við höfum báðir trúi ég heyrt af því sögur að gagnrýnir og harðskeyttir fjölmiðlar erlendis meðhöndli eða siði til þá sem gera tilraunir til að „stýra“ umfjöllun fjölmiðla á þennan veg, þ.e. með því að velja sér viðmælendur eða að neita að mæta nema þá einir. Það er þá gert með því að hafa stól þeirra tóman í þættinum og skýra frá því að viðkomandi hafi ætlað að setja þátttöku sinni óaðgengileg skilyrði, eða með því að láta rödd viðkomandi vanta en taka fram að honum eða henni hafi boðist að vera með en ekki þegið. Ég vil því að lokum spyrja; telur þú réttlætanlegt að sumir stjórnmálamenn geti með þessum hætti skilyrt og stýrt þátttöku sinni í umræðum um þjóðmál á ykkar vettvangi og ef svo er, hvernig hyggst þá RÚV uppfylla ákvæði laga um „fyllstu óhlutdrægni“ og að vera vettvangur fyrir „mismunandi skoðanir“ við slíkar aðstæður?

virðingarfyllst

…………………………………………………
Steingrímur J. Sigfússon

Samrit til fjölmiðla