Fara í efni

PÓLITÍSKT MAT Á MANNSLÍFUM


Málstaðurinn skiptir öllu máli þegar mannslífin eru metin í vestrænum fjölmiðlum. Á undanförnum dögum hef ég fylgst nokkuð með fréttum evrópskra sjónvarpsstöða. Ekki veit ég hve oft brugðið hefur verið á skjáinn myndum af logandi jeppabifreið við flugstöðvarbygginguna í Glasgow í Skotlandi. Breska lögreglan telur að þar hafi hryðjuverkamenn komið að verki. Engan sakaði. Mikil leit fer nú fram á hugsanlegum vitorðsmönnum. Sama dag og þetta gerðist féllu 60 Afganar fyrir hendi NATÓ hersins í Afganistan, þar á meðal fjöldi barna. Frétt um þetta efni  birtist í flestum meiriháttar fjölmiðlum. Síðan gufaði fréttin upp. Engar spurnir hafa borist af því að réttað sé yfir barnamorðingjunum í Afganistan. Hvað þá að leitað sé að vitorðsmönnum. Ekki svo að skilja að þeirra þurfi að leita. Þeir sitja í stjórnarráðum aðildarríkja NATÓ.