Fara í efni

PENINGASEÐLARNIR OG EFTIRLITSÞJÓÐFÉLAGIÐ

 

Þakkarvert er að efnt skuli til umræðu um peningaseðlana, hvort þeir skuli áfram leyfðir sem gjaldmiðill; þakkarvert vegna þess að í umræðuleysinu eru þeir á útleið. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/06/01/reidufe_ur_umferd_til_ad_uppraeta_peningathvaetti/?fbclid=IwAR26-BwGpGixh2pQmoM8qwTGq7UMZThhrg3k9gnVT2Iy18LEbfFE1MTe7nQ#Echobox=1685648603

Margir vilja hreinlega banna viðskipti með peningum, það er að segja peningaseðlum. Það er skiljanleg krafa vegna þess að þá yrðu allar greiðslur rekjanlegar og ekki hægt að komast upp með undanskot frá skatti. Ef menn hafa ekkert að fela, hvorki gagnvart skattinum né öðrum, ætti þetta að vera útlátalaust – og kannski meira en það, til mikilla bóta. Eða hvað? Ég er ekki alveg viss um að svo sé þegar öll kurl eru komin til grafar og málið metið heildstætt.

Enda þótt það sé skiljanlegt að skatta- fjármálaeftirlitstofnanir vilji geta fylgt peningum eftir og þannig gengið úr skugga um að skattalög séu ekki sniðgengin eða eitthvað óhreint á ferðinni, þá er ekki þar með sagt að við kærum okkur um að vera undir stöðugu eftirliti af hálfu yfirvalda eða hagsmunaaðila í viðskiptum og verslun. Því einnig þeir vilja geta fylgst með hreyfingum peninganna og þá einnig handhafa þeirra. Þeir vilja með öðrum orðum geta fylgst með okkur – mér og þér og öllum öðrum.
Fái þeir vitneskju um kortanotkun okkar geta þeir fylgst með neyslu okkar, hvar við kaupum og hvað við kaupum. Þar með eru þeir komnir í kjörstöðu auglýsandans. Þetta er nú reyndar allt að koma hjá þeim, slíkur er máttur eftirlitstækninnar. Við sjáum það í tölvunum okkar eftir að við höfum gengist inn á að heimila allar auglýsingarnar þá vita seljendur allt um mögulega kaupendur. Og það sem meira er þeir vita nákvæmlega hvar þeir halda sig hverju sinni. Tölvurnar okkar og símarnir upplýsa um það. Þegar við nýtum staðsetningartækni google og annarra ámóta, okkur til mikils hægðarauka þá stimplum við jafnframt inn hvar við erum hverju sinni og gerum slóð okkar rekjanlega. Mér skilst þetta sé svona án þess að ég nokkur sérfræðingur í þessari tækni. En þannig fylgjast kostirnir og gallarnir að.

Aftur má spyrja hvort þetta sé ekki allt í himnalagi? Varla hættum við að ráða gjörðum okkar þótt við yrðum beitt áróðri og þrýstingi - eitthvað umfram það sem þegar er gert - til að hafa áhrif á neyslu okkar? Það yrði stigsmunur en varla eðlismunur.

En hvað sagði fólk þegar það gerðist á kóvid tímanum að heilbrigðisyfirvöld vildu vita hverjir höfðu komið við á tilteknum veitingastöðum í Reykjavík þar sem kovid hafði orðið vart? Þá voru lögregla og kortafyrirtæki virkjuð til að sjá hver hafði verið hvar og keypt hvað. Sagt var að þetta væri gert í almannaþágu – að sjálfsögðu; allt að beiðni heilbrigðisyfirvalda og með samþykki og að áeggjan stjórnvalda.
Ég spurði hvað fólk hefði sagt. Það er nú það, þeir voru teljandi á fingrum annarrar handar sem yfirleitt sögðu nokkuð. Enda að ráði fólks á hvítum sloppum, lögreglu og ríkisstjórnar landsins. Hver véfengir yfirvaldið?

Undarlegt? Ekkert sérstaklega í samfélagi sem er ekki enn farið að kveikja á því að við erum á leiðinni inn í fullkomið eftirlitsþjóðfélag; smalað í rétt eins og sauðum af fjalli.

Ég held við ættum að halda í peningaseðlana. Hafa þá í það minnsta sem varaskeifu ef eftirlitsþjóðfélaginu skyldi þóknast að loka greiðslukortinu okkar – og svipta okkur þar með allri lífsbjörg. Það gæti hent þá sem ekki þóknast yfirvaldinu.

Ef almenningur vaknar ekki til vitundar um þessa hættu gæti orðið stutt í þennan veruleika.
Í alvöru.