Fara í efni

PÁLL SIGURÐARSON KVADDUR

Í dag er kvaddur frá Seltjarnarneskirkju samstarfsmaður frá árum áður, Páll Sigurðarson. Margir minnast hans í dag með birtingu minningargreina og er ég í þeim hópi. Eftirfarandi minninargrein sem ég skrifaði um Pál birtist í Morgunblaðinu í dag:

Páll Sigurðarson var mikill karakter og verður fyrir vikið öllum þeim sem kynntust honum eftirminnilegur. Leiðir okkar Páls lágu saman sumarið 1974 þegar ég starfaði undir hans verkstjórn að framleiða olíumöl við Kosshól skammt austan Þjórsár. Vinnuflokkurinn keypti tilbúinn mat á Hellu en gist var á Hvolsvelli. Þarna héldum við til í nokkrar vikur.
Í vinnuflokknum voru litríkir og skemmtilegir menn en litríkastur og skemmtilegastur var foringinn, Páll Sigurðarson. Hann vissi margt um íslenska menningu og þjóðhætti og allt vissi hann um vegagerð á Íslandi bæði um það sem vel hafði verið gert en einnig hitt þegar betur hefði mátt takast til. Skýring Páls var alltaf á sömu leið og gilti það bæði um hið jákvæða og hið neikvæða. Þegar saman færi þekking hinna sérfræðimenntuðu annars vegar og svo hins vegar þeirra sem hefðu dóma reynslunnar í sínu farteski þá tækist vel til. Af þessu ættum við að læra sagði Páll.
Um dagana hef ég starfað undir verkstjórn margra manna. En af bar Páll Sigurðarson. Gagnstætt því sem tíðkaðist hjá mörgum öðrum kom klukkan lítið við sögu á vinnudeginum í flokki Páls. Það var verkið sem einblínt var á; öllu máli skipti að ljúka því verki sem fyrir lá.
Matar- og kaffitímarnir gátu því varað í tíu mínúntur en einnig í hálfan annan tíma ef svo bar undir.
Allir voru sáttir við þetta fyrirkomulag enda þarna spunninn þráður úr íslenskri verkmenningu eins og best gerðist.
Til hátíðabrigða kveikti Páll sér stundum í vindli. Vindlana kallaði hann geðprýðisstauta. Á áramótum hugsaði ég jafnan til Páls og gerði það að venju að færa honum þá nokkra geðprýðisstauta. Aldrei spurði ég Pál hvort hann reykti enn. Fannst það ekki skipta máli. Það sem skipti máli var minningin um verkstjórann sem horfði kankvís á sinn unga verkamann sem hafði orðið faðir þá um sumarið og sá á eftir konu sinni og barni til útlanda nokkrum vikum áður en hann sjálfur legði land undir fót en á þessum árum stunduðum við bæði, ég og kona mín, nám í Edinborg í Skotlandi.
Við verðum að senda strákinn í bæinn að kveðja konuna sagði Páll. Sú varð síðan raunin.
Og nú kveð ég Pál Sigurðarson sem sennilega er fyrir löngu hættur að reykja geðprýðisstauta enda voru þeir fyrst og fremst táknrænir í minningunni um minn gamla velgerðarmann.