Fara í efni

Óviðeigandi, jafnvel ólöglegt !

Í sjónvarpsfréttum lýsti stjórnandi fangelsismála hernámsliðsins í Írak því yfir, að pyntingar á föngum hefðu verið „óviðeigandi, jafnvel ólöglegar“
( improper, even illegal)! Er það virkilega svo, að stjórnendum fangelsismála hafi þótt þetta óviðeigandi og hugsanlega ekki í samræmi við lög? Í fréttinni með þessum yfirlýsingum herforingjans voru sýndar myndir af nöktum mannslíkömum nöktum mannslíkömum, bundnum saman í stóra kös; aðrir fangar voru reyrðir fastir, með bundið fyrir augun eða með kvenmannsnærbuxur yfir höfðinu. Allt gert til að valda sem mestri þjáningu og niðurlægingu. Frásagnir af nauðgunum og misþyrmingum fylgdu.

Um þetta þarf ekki að hafa mörg orð - því myndirnar segja sína sögu -  að öðru leyti en því að mannréttindasamtökin Amnesty International höfðu fyrir nokkru síðan staðhæft, að pyntingarnar ættu sér stað án þess að reynt væri að stöðva þær. Þessar uppljóstranir eigum við að þakka hugrökku fólki, sem ekki lætur kúga sig til að þegja. En einnig er þetta tækninni að þakka, ljósmyndirnar afhjúpa kvalarana og fyrir tilstilli tækninnar er þeim komið á framfæri í einu vetfangi um heim allan, ekki aðeins í hefðbundnum fjölmiðlum heldur einnig á netinu. Í þessu samhengi er ástæða til að benda á vefsíðuna gagnauga.is en þar er að finna slóðir þar sem hægt er að nálgast myndefni af þessum voðaverkum (sjá undir niðurhal).

En að lokum þetta. Skyldi þetta vera í fyrsta skipti sem bandaríski og breski herinn beita aferðum af þessu tagi til að brjóta andstæðinginn niður? Hvað gerðist í fangelsum á Balkanskaga, að ekki sé minnst á Víetnam? Og hvað með Mið-Ameríku? Nýr sendiherra í Írak, John Negroponte, gæti án efa veitt fróðlegar upplýsingar úr fangelsum Mið-Ameríku, en í sendiherratíð hans í Hondúras á fyrri hluta níunda áratugarins, þjálfaði bandaríska leyniþjónustan CIA dauðasveitir sem frömdu ólýsanleg grimmdarverk.  Pyntingarnar í Írak eru því engin nýlunda. Það sem er nýtt er að nú fáum við óyggjandi sannanir í hendur.