Fara í efni

ÓTVÍRÆTT FRAMSAL LÖGGJAFARVALDDS

Það er grátbroslegt þegar því er haldið fram að bókun 35, um að Evrópulöggjöf skuli gilda umfram innlenda, feli ekki í sér framsal löggjafarvalds. Ísland er neytt til að taka upp lög og reglur EES svo lengi sem við erum hluti af Evrópska efnahagssvæðinu. Innri markaðurinn er kjarninn í ESB og tekur á allri löggjöf er varðar svokallaðan innri markað ESB.

Hæstiréttur Íslands hefur verið haldinn þeim "ranga misskilningi" skv. ESA og EFTA dómsstólnum, (sem fylgja blindt ESB dómstólnum, sem dæmir einvörðungu út frá því grundvallarprinsippi að vernda ESB og fylgja þeim lagaramma öllum) að hann hafi eitthvert svigrúm til sjálfstæðrar túlkunar á íslenskum lögum, þegar skerst í odda við Evrópulöggjöf. Því vissulega hefur Hæstiréttur skapað dómafordæmi sem skarast á við túlkun ESA á undanförnum áratugum. Það hefur ESA þótt illþolanlegt og eftir langa rimmu stóð Ísland nú frammi fyrir því að vera dregið fyrir EFTA dómstólinn, ef landið beygði sig ekki.

Svigrúmið sem Hæstiréttur hafði fólst í hvernig 3.gr. löggjafar um EES var orðuð í íslenskum lögum. Sú grein var eðli máls loðin, enda reyndi evrópski löggjafinn að sætta þar andstæður, að einstök aðildarlönd skyldu hafa óskert löggjafarvald á sama tíma sem Evrópulöggjöfin skyldi vera æðri landslögum. Þessi loðmulla var á sínum tíma nauðsynleg til að fá væntanleg aðildarlönd og íbúa þeirra til að samþykkja inngönguna í ESB eða EES. En þar sem Evrópuvaldinu var ljóst að slíkt svigrúm til sjálfstæðra túlkana gengi ekki ef vernda ætti hagsmuni "markaðarins", þá var bókun 35 bætt við lagasafnið. Hún er afdráttarlaus um að evrópulöggjöf hefur alltaf forgang á innlenda, túlki varðmenn ESB innlenda löggjöf sem hún sé á skjön við þá evrópsku.

Í stað þess að krefjast staðfestingar á sjálfstæði löggjafarþinga og dómstóla gagnvart ESB löggjöf er Ísland nú að bætast í hóp aðildarríkja ESB og EES sem hafa kosið að kyssa vöndinn og krjúpa fyrir Evrópuvaldinu. Enda er ESB (og þar með ESA og EES) brennt af útgöngu Breta og hvers kyns sjálfsstæðistilburðir verða ekki liðnir. Íslendingar, sem og frændur vorir Norðmenn, eiga að sjálfsögðu að draga réttar ályktanir af ofríki ESB/EES og berjast fyrir úttgöngu úr Evrópska efnahagssvæðinu.