Fara í efni

Óskiljanleg framkoma fjármálaráðherra

Geir H Haarde hefur að mörgu leyti verið farsæll fjármálaráðherra. Að sjálfsögðu verður ekkert horft framhjá því að sem fjármálaráðherra ber hann fulla ábyrgð á þeirri  stjórnarstefnu, sem hér hefur verið fylgt á undanförnum árum en afleiðingar hennar eru smám saman að birtast í aukinni misskiptingu gæðanna, niðurbroti á samfélagsþjónustu og samþjöppun á auði og völdum. Þrátt fyrir þetta nýtur Geir H Haarde talsverðs trausts. Það á til dæmis við um marga viðsemjendur fjármálaráðherrans. Innan BSRB og annarra heildarsamtaka, BHM og Kennarasambands Íslands, hefur almennt verið litið á Geir H. Haarde sem mann sátta, reiðubúinn að hlusta á rök gagnaðila og freista þess að ná samningum. Þess vegna er með öllu óskiljanlegt að hann skuli nú tilbúinn að eyðileggja gott orðspor sitt með einhliða valdboði. Nú er komið í ljós að hann ætlar að gera alvöru úr því að  freista þess að keyra í gegnum þingið frumvarp sem gengur þvert á vilja launafólks. Hér er að sjálfsögðu vísað til hins makalausa skerðingarfrumvarps sem gerir duglausum forstöðumönnum fyrirhafnarlaust að reka úr starfi fólk sem þeim líkar ekki.  Í stað þess að forstöðumaðurinn þurfi að áminna viðkomandi starfsmann, þannig að hann fái tækifæri til að bæta ráð sitt eða leiðrétta hugsanlegan misskilning, yrði, með samþykkt laganna, hægt að reka hann skýringalaust. Að vísu ekki alveg. Starfsmaðurinn má kvarta – en aðeins eftir að ákvörðun hefur verið tekin um að reka hann! 

Ofangreind samtök hafa átt í viðræðum um breytingar á lagaumhverfi opinberra starfsmanna. Með frumvarpi sínu hefur fjármálaráðherrann hleypt þessum viðræðum í uppnám. Það sem meira er, þetta er alvarleg ögrun í garð þeirra stéttarfélaga sem senn setjast að samningaborði við fulltrúa fjármálaráðherra. Kjarasamningar eru að losna. Ekki lofar þetta góðu um framhaldið! Hvernig sem á málin er litið er þetta óskiljanleg framkoma af hálfu Geirs H. Haarde, fjármálaráðherra.