Fara í efni

Öryrkjabandalaginu óskað til hamingju

Í lesendabréfi í dag er ég spurður áleitinnar spurningar. Spurt er hvað mér finnist um þá ákvörðun Framsóknarflokksins að skrifa undir samkomulag við Öryrkjabandalagið um breytingar á örorkulífeyri sem koma eiga til framkvæmda á næsta kjörtímabili. Auðvitað get ég tekið undir með bréfritara að Framóknarflokkurinn sem ekkert hefur aðhafst í átta ár skuli voga sér að skrifa undir eitthvað sem eðlilegra hefði verið á þessari stundu að setja fram sem kosningaloforð. Á hitt er að líta að þetta er komið til vegna þrotlausrar baráttu Öryrkjabandalagsins og hljótum við að fagna árangi þess þótt það afsaki ekki framgöngu Framsóknarflokksins. Í mínum huga vegur þyngst að hækkun á örorkubótum kemur til framkvæmda og það er meginmálið. Þess vegna óska ég Öryrkjabandalagi Íslands til hamingju með mikilvægan áfanga.