Fara í efni

ÖRYGGISRÁÐIÐ, ÖSSUR OG DRÁPSTÓLIN


Hjartanlega var ég sammála Össuri Skarphéðinssyni, starfandi utanríkisráðherra að við hefðum ekkert með breskar orustuþotur að gera til landsins í haust til að sinna „loftrýmiseftirliti". Hvaða þýðingu þetta „loftrýmiseftirlit"  hefur er náttúrlega mál út af fyrir sig. Reglulegar heimsóknir  til Íslands með drápstól frá NATÓ  er einn af „stórsigrum" þeirra Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar í utanríkispólitíkinni.

Réttar tölur?

Annar „stórsigur" vannst síðan í dag þegar Íslendingar steinlágu í kosningu um að fá að sitja í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í tvö ár. Ingibjörg Sólrún lýsti því strax yfir samkvæmt RÚV í dag „að því færi fjarri að sú vinna sem lagt var í vegna framboðs Íslands hafi verið unnin fyrir gíg."
Utanríkisráðuneytið segir að framboðsbaráttan sem staðið hefur sleitulaust frá árinu 2001 hafi kostað 300 milljónir króna og hefðum við náð kjöri hefði setan í Öryggisráðinu kostað 100 milljónir á ári. Ég leyfi mér að efast um að þessar tölur séu réttar hvað varðar áróðurskostnaðinn með öllu heimshornaflakkinu og öðru sem tilheyrir þegar reynt er að sleikja upp stuðning við framboð af þessu tagi.

Ólympíuleikar Björns Bjarnasonar

Geir, forsætisráðherra, sagði að Ísland stæði geysilega sterkt eftir tapið og Björn, dómsmálaráherra, líkti þessu við þjálfun fyrir heimsleika: „Ég taldi á sínum tíma rétt, að tekið yrði þátt í þessari kosningabaráttu, því að það væri eins og að þjálfa fyrir Ólympíuleikana. Væntanlega verður skrifuð skýrsla um málið..." Fyrstu viðbrögð mín voru að biðjast undan skýrslugerðinni en auðvitað þarf að sundurgreina kostnaðinn og birta okkur fundargerðir af samtölum við þá sem rætt var við. Nauðsynlegt ar að fá að vita nákvæmlega hverju Ísland lofaði þegar beðið var um stuðning í ráðið.
Íslendingar búa nánast við styrjaldarástand. Bretar hafa beitt okkur fáheyrðum bolabrögðum. Við þessar aðstæður hefði þjóðin þurft á öllu sínu fólki í utanríkisþjónustunni að halda heilu og óskiptu til varnar og sóknar í baráttunni um íslenskt efnahagslíf. Nei, þá er það Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sem öll orkan hefur beinst að. Ef keppt hefði verið í veruleikafirringu á Ólympíleikum Björns Bjarnasonar hefði ríkisstjórn Íslands án nokkurs vafa hreppt gullið.

Gott hjá Össuri

Ég var staddur í fjölmennum þverpólitískum hópi þegar fréttir bárust frá New York í dag. Ég ætla að láta ógert að segja frá viðbrögðunum, þó get ég upplýst að enginn grét úrslitin.
Heldur lyftist brúnin þegar Össur Skarphéðinsson mætti á sjónvarpsskjáinn sem áður sagði og lýsti yfir að heimsóknar breskra orustuflugvéla til Íslands væri ekki óskað. Slíkt væri ögrun við íslenskt þjóðarstolt. Geir Haarde var líka á fréttaskjá kvöldsins með undanhald og úrtölur. Slíku var ekki til að dreifa hjá starfandi utanríkisráðherra. Gott hjá Össuri.