Fara í efni

ÖRYGGISRÁÐ SÞ: ENN LEGGUR UTANRÍKISRÁÐHERRA LAND UNDIR FÓT

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, er að hætti forvera sinna lögst í heimsreisur undir því yfirskyni að hún sé að afla Íslandi stuðnings til að komast í Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna. Í gær var það Evrópa og nú er það Afríka. Ég spyr um kostnað og þá ekki síður um tilganginn með þessu brölti. Sannast sagna hélt ég að við stjórnarskitpin yrði horfið frá þessari gömlu þráhyggju Halldórs Ásgrímssonar, sem mánuðum og árum saman fór vítt og breitt um heiminn í þessum erindgjörðum. Þannig voru þessar heimsreisur allavega réttlættar. En er þetta virkilega besta leiðin til að við látum gott af okkur leiða á alþjóðavettvangi? Viljum við fulltrúa í Öryggisráðið til að standa þar Natóvaktina? Mér þótti ekki lofa góðu hve glaður aðstoðarutanríkisráðherrann hjá Bush Bandaríkjaforseta var eftir fundinn með Ingibjörgu Sólrúnu nú nýlega. Þessi fulltrúi Bush kvaðst himinlifandi yfir framboði Íslands í Öryggisráðið og sagði að íslenska ríkisstjórnin væri einn traustasti bandamaður núverandi Bandaríkjastjórnar. Dauflega hafa “mótmælin” gegn Íraksstríðinu verið orðuð af hálfu fulltrúa Íslands á þessum fundi. Að mínu mati ættum við því aðeins erindi í Öryggisráð SÞ að við hefðum uppburð í okkur til að tala máli friðar og réttlætis en ekki Georgs Bush og hernaðarbandalagsins Nató.
Sunna Sara