Fara í efni

ORÐ OG ATHAFNIR HEILBRIGÐISRÁÐHERRA STANGAST Á

Fréttablaðið hefur verið með ágætan fréttaflutning að undanförnu um þróun innan spítalakerfisins. Í föstudagsútgáfunni er að finna athyglisvert viðtal við Jóhannes M. Gunnarsson, framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Hann segir svo komið að tilteknar aðgerðir séu ekki lengur framkvæmdar innan veggja spítalanna. Ýmsar sértækar aðgerðir, hnéuppskurðir og aðgerðir á öxlum, séu nær eingöngu framkvæmdar á einkastofum. Orðrétt hefur fréttamaður Fréttablaðsins eftir Jóhannesi: "Það er ekki heppilegt að ákveðin þjónusta hverfi algjörlega út af spítölunum, eins og hefur gerst. Spítalinn er háskólastofnun sem gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki við að samtvinna þjálfun starfsfólks og heilbrigðisþjónustu. Að því leytinu er það óeðlilegt að spítalinn hafi ekki aðstöðu til þess að byggja upp þekkingu við vissar aðgerðir sem aðeins er farið að bjóða upp á utan spítala..."

Þetta minnir mig á baráttu okkar starfsmanna Sjónvarpsins á sínum tíma gegn því að bjóða allt framleitt efni, sem sýna átti, út. Við bentum á að með því móti yrði öll fagþekking smám saman flutt út úr stofnuninni og hún því gerð ófær um að takast sjálf á við annað en einföldustu verkefni. Þetta myndi koma niður á allri framleiðslu í RÚV.
Á sjúkrahúsi er þetta að sjálfsögðu miklu alvarlegra mál. Ég minnist þess þegar vinur minn einn lá banaleguna á Borgarspítalanum í Reykjavík með æxli í höfði. Þá þurfti að aka með hann í sjúkrabíl í einkarekna myndatöku í Dómus Medica þar sem teknar voru hágæða röntgen myndir. Að sjálfsögðu höfðu tækin í Dómus verið borguð af hinu opinbera því sjúklingum og þar með fjármagninu hafði öllu verið beint þangað en ekki inn í sameignar sjúkrahúsið sem fyrir bragðið hafði mun lakari tækjakost. Nákvæmlega þessi þróun er nú að eiga sér stað á fleiri sviðum.

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, lýsti því yfir - einnig í Fréttablaðinu -  fyrir fáeinum dögum, að hún væri alfarið á móti einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Engu að síður er þessi þróun að eiga sér stað í ráðherratíð hennar og blaðamaður Fréttablaðsins bendir á, að í farvatninu sé frumvarp "sem felur í sér styrkingu heimilda til aðkomu einkafélaga að heilbrigðisþjónustu..."
Ef um er að ræða sama frumvarp og sýnt var í sölum Alþingis síðastliðið vor, þá er þetta hárrétt ábending hjá Fréttablaðinu, sem á þakkir skilið fyrir vandaðan fréttaflutning af  framvindu þessara mála.

Ég efast í sjálfu sér ekki um góðan vilja Sivjar Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra. En það má ráðherrann vita, að saman verða að fara orð og athafnir. Frumvarpið frá í vor er ávísun á frekari einkavæðingu, gagnstætt því sem Siv Freiðleifsdóttir boðar. Ljóst er að um frumvarpið munu rísa miklar deilur verði það lagt fram óbreytt.