Fara í efni

Ónýt/Ónýtt starfsorka


Í dag var haldin mjög vekjandi ráðstefna um atvinnuleysi miðaldra fólks - 45 ára og eldri. Áhugahópur sem hefur verið stofnaður um málefnið blés til ráðstefnunnar í samvinnu við Vinnumálastofnun og ýmis verkalýðsfélög, þar á meðal BSRB. Þetta er lofsvert framtak og enginn vafi á að framhald á efir að verða á þeirri umræðu sem hér er stofnað til. Á ráðstefnunni, sem haldinn var undir yfirskiftinni "Ónýt/ónýtt starfsorka?" flutti Norðmaðurinn Asmund Lunde, framkvæmdastjóri Senter för Seniorpolitikk, mjög fróðlegt erindi og fjallaðii hann m.a. um leiðir til að styrkja stöðu miðaldra fólks á vinnumarkaði. Hann vitnaði í könnun, sem sýndi að þorri Norðmanna telur, að eldra fólk eigi erfiðar uppdráttar í tækniþjóðfélagi í örri þróun en unga fólkið. Ég velti því inn í umræðuna hvort það gæti verið annað sem torveldaði eldra fólki aðkomu að vinnumarkaði, ekki veikleiki heldur þvert á móti styrkur. Ungir atvinnurekendur óttuðust þroskaða, sterka einstaklinga í vinnuumhverfinu. Styrkur hins eldra einstaklings í atvinnuleit snerist þannig upp í andhverfu sína.
Árni Magnússon, félagsmálaráðherra setti ráðstefnuna en síðan fluttu tveir einstaklingar reynslusögu sína, Guðmundur S. Guðmundsson tæknifræðingur og Ólafur Ólafsson tölvunarfræðingur.
Hugrún Jóhannesdóttir forstöðumaður Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins flutti erindi, sem bar yfirskriftina, Að takast á við atvinnuleysi á miðjum aldri.
Elín R. Líndal og Kristinn Tómasson læknir Vinnueftirlitsins fjölluðu um Starf og nýja viðhorfskönnun nefndar félagsmálaráðherra varðandi stöðu miðaldra fólks á vinnumarkaði.
Breytingar er þörf, var heiti fyrilesturs Öldu Sigurðardóttur, fræðslustjóra VR og Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins spurði, Skiptir aldur máli?
Gylfi D. Aðalsteinsson, lektor við Háskóla Íslands flutti erindi þar sem spurt var, Endurspeglar starfsmannastefna hæfnis- og eiginleikakröfur starfsmanna?  Ráðstefnustjóri var Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar og stýrði henni af miklum skörungsskap.
Því miður gat ég ekki hlustað á aðra en fyrirlestur Norðmannsins sem áður getur, þar sem ég var upptekin við önnur verkefni en vona að þeim verði gerð góð skil í fjölmiðlum.  Hér fylgir erindi sem ég flutti á þessari ráðstefnu:

Um forvarnir gegn atvinnuleysi

Án þess að ég ætli að fjalla um þetta mál á grundvelli nákvæmrar tölfræði er ljóst að hlutfall starfsmanna ríkis og sveitarfélaga hefur á undanförnum árum farið vaxandi í heildarfjölda atvinnulauss fólks í landinu. Liggja margar ástæður til þess.

En áður en ég vík að þeim er rétt að benda á að eðli máls samkvæmt hafa starfsmenn ríkis og sveitarfélaga búið við mun meira starfsöryggi en launafólk á almennum vinnumarkaði. Í þessu samhengi ætla ég að víkja að tvennu.

Í fyrsta lagi hefur starfsöryggi opinberra starfsmanna verið betur tryggt í lögum og reglugerðum en tíðkast á almennum vinnumarkaði þótt þeirri stefnu sé nú fylgt mjög fast fram að draga úr ráðningarfestu opinberra starfsmanna. Sú tíð er löngu liðin að opinberir starfsmenn búi við æviráðningu sem svo var nefnd. Um langt árabil hefur verið hægt að segja opinberum starfsmönnum upp störfum vegna skipulagsbreytinga auk þess sem að sjálfsögðu hefur verið hægt að segja upp  fólki gerist það brotlegt í starfi. Í slíkum tilvikum, eða þegar starfsmaður rækir ekki starfsskyldur sína, ber samkvæmt núverandi lögum að  veita honum áminningu þannig að hann eigi þess kost að bæta sig eða hugsanlega leiðrétta misskilning sem kann að búa að baki fyrirhugaðri uppsögn. Þá má til sanns vegar færa að í biðlaunaréttinum, sem veitti starfsmanni rétt til hálfs árs eða eins árs launa eftir því hver starfsaldur hans var, hafi verið fólgin viss vörn gegn uppsögnum því stjórnandi þurfti að hyggja að þeim viðbótarútgjöldum sem uppsögninni fylgdu. Einnig þetta ákvæði var skert og numið brott úr lögum fyrir nýráðna starfsmenn með lagabreytingum sem tóku gildi árið 1997 auk þess sem rétturinn var skertur hjá núverandi starfsmönnum. Í þessu samhengi, þ.e.a.s. með tilliti til réttarstöðu opinberra starfsmanna, er rétt að benda á að einkavæðing opinberra stofnana hefur oftar en ekki leitt til verulegrar mannfækkunar. Ekki er það vegna þess að viðkomandi starfsemi hafi verið ofmönnuð heldur vegna hins að áherslan verður nú á að skapa hámarksarð með lágmarkstilkostnaði. Það þýðir fækkun starfsmanna.

Í öðru lagi þá hafa starfsmenn hins opinbera almennt verið í tryggari stöðu en starfsmenn á almennum vinnumarkaði, vegna þeirra verkefna sem þeir sinna. Í verkahring opinberra aðila er að starfrækja grunnþjónustu sem þarf að vera til staðar nánast hvernig sem "viðrar" í efnahagslífinu. Fyrir bragðið hefur opinber þjónusta nánast notið friðhelgi jafnvel í erfiðum efnahagsdýfum. Þar er vísað til heilbrigðisþjónustunnar, menntakerfis, félagsþjónustu og stoðþjónustu af margvíslegu tagi, rafmagns, vatns, skólps, löggæslu og þannig mætti eitthvað áfram telja. Þetta er á góðri leið með að verða liðin tíð. Ríkisvaldið reynir allt hvað það getur að færa verkefni sem verið hafa á hendi hins opinbera út á markað og innleiða notendagjöld. Þetta þýðir að opinber þjónusta verður í sífellt ríkari mæli tengd sveiflum í hagkerfinu, lögmálum framboðs og eftirspurnar. Það segir sig sjálft að slíkt dregur úr atvinnuöryggi.


Þessi þróun er ekki alveg ný af nálinni. Á undanförnum hálfum öðrum áratug hefur markvisst verið unnið að því að draga úr þeim skilum sem verið hafa á milli opinbers reksturs og einkareksturs. Í greinargerð sem fylgdi lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar árið 1996 var hamrað á því að nauðsyn bæri til að koma á meiri sveigjanleika í starfsmannahaldi "með því að gera réttarstöðu opinberra starfsmanna sem líkasta réttarstöðu starfsmanna hjá einkafyrirtækjum." Fyrir Alþingi liggur nú að nýju frumvarp sem hefur nálkvæmlega þetta að markmiði. Í umsögn eða minnispunktum  fjármálaráðuneytisins um þingmálið segir m.a.: "Með frumvarpinu er ennfremur stefnt að sveigjanleika í opinberum rekstri. Þannig að ríkið hafi möguleika og tækifæri á að hafa í þjónustu sinni þá starfsmenn sem henta hverju sinni. Er þetta ekki síst mikilvægt á þeim tímum þegar inntak og eðli starfa breytast samhliða örri tækniþróun og nýjum áherslum í starfsemi ríkisins."

Ekki þykir mér þetta mannvæn eða framfarasinnuð hugsun þótt eflaust megi til sanns vegar færa að allt sé undir því komið hvernig úr henni er unnið. Undir það skal vissulega tekið að mikilvægt er að opinber þjónusta taki breytingum í takt við tímann og reyndar vil ég ganga lengra og segja að hún þurfi jafnan að vera í fararbroddi um framfarir. Hér vil ég leggja áherslu á tvennt: Jákvætt viðhorf til breytinga og símenntun.

 1)      Það er mikilvægt að allir þeir sem starfa við almannaþjónustu geri sér rækilega grein fyrir ábyrgð sinni og mikilvægi þess að vinna stöðugt að því að bæta sig í starfi og vinna markvisst að því að veita sífellt betri þjónustu. Til að leggja áherslu á þetta gaf BSRB árið 1999 út bækling sem bar heitið, Bætum samfélagsþjónustuna. Samtökin buðu fjármálaráðherra og fulltrúum sveitarfélaga til samstarfs um þetta efni og samhliða var efnt til fundaherferðar á meðal félagsmanna til þess að ræða hve mikilvægt það væri að vera jákvæður til breytinga sem horfðu til framfara.

2)      Í annan stað þurfa atvinnurekendur og stéttarfélögin í sameiningu að vinna að stöðugri og markvissri endurmenntun á meðal starfsmanna. Hér hafa stór skref verið stigin á undanförnum árum og er það mjög lofsvert. En betur má ef duga skal. Að hinu leytinu er hægt að taka undir að vissulega þarf sveigjanleiki að vera í allri starfsemi og þar með mannahaldi. Það þýðir ekki að starfsmenn eigi ekki að búa við trygg réttindi. Gott starfsöryggi er nauðsynlegt til að sporna gegn duttlungastjórnun og til að koma í veg fyrir það frumstæða viðhorf að líta beri á starfsmenn eins og hver önnur verkfæri sem eigi að henda þegar ný tól koma á markað. Útsjónarsamur og góður stjórnandi sér  breytingar fyrir og vinnur að því að veita starfsfólkinu möguleika á því að afla sér þekkingar til að laga sig að nýjum háttum eða færa sig til innan starfseminnar þannig að starfskraftar hvers og eins nýtist sem best.

Í aðdraganda þess að Slysavarnarfélag Íslands var stofnað árið 1928 hafði nokkuð verið rætt um heiti á félaginu. Um skeið stóð til að skýra það Björgunarfélag Íslands eða nafni sem byggði á þeirri hugsun. Það mun hafa verið Guðmundur Björnsson, landlæknir og þingmaður með meiru, sem átti uppástunguna að núverandi nafni. Mér hefur alltaf hugnast afstaða hans vel: Að leggja höfuðkapp á að forða slysum. Í mjög mörgum tilvikum á þetta sama viðhorf við varðandi atvinnuleysið. Þar gildir nefnilega að hafa uppi forvarnir. Ég tel bæði rétt og hollt að líta á atvinnuleysi sem skipulagskreppu, sem samfélagið þurfi að takast á við, bæði í efnahagskerfinu almennt en einnig inni á hverjum vinnustað. Ég segi rétt, vegna þess að ég tel þetta rétta greiningu á atvinnuleysi, og hollt vegna þess að mikilvægt er að allir hafi jafnan hugfast að með góðu skipulagi og árvekni er iðulega hægt að koma í veg fyrir að fólk missi vinnu sína. Þetta er spurning um skipulag. Á vinnustöðum, sem eru skipulagðir af fyrirhyggju og með það í huga að auðvelda starfsfólkinu að laga sig að breyttum háttum missa menn síður vinnuna en á hinum þar sem latir og hugmyndasnauðir stjórnendur ráða ríkjum.  Á þeim bæjum er talið auðveldast að losa sig við þá starfsmenn sem ekki "henta" hverju sinni  eins og fjármálaráðuneytið kemst að orði sem áður segir.

Hér eru hagsmunir eldra starfsfólks sérstaklega í húfi. Þar horfi ég til starfsfólks sem er á miðjum aldri. Auk öflugs endur- og símenntunarkerfis tel ég að þurfi að reisa sérstaka múra þessum aldurshópi til varnar. Þannig er æskilegt að uppsagnarfrestur lengist í samræmi við blöndu sem samanstæði af aldri og starfsaldri. Þá teldi ég  æskilegt að taka að nýju upp biðlaunaskyldu gagnvart því fólki sem starfað hefur í langan tíma hjá fyrirtæki eða stofnun og missir síðan starf sitt á fullorðinsaldri.