Fara í efni

ÖLL SPIL Á BORÐIÐ

Herra Alþingismaður, Ögmundur Jónasson!
Ég fór inná síðuna þína fyrir nokkrum dögum og fannst hún góð.
Ég fór því inná hana í dag, og eftir að hafa lesið fyrsta pistilinn þinn á henni undir fyrirsögninni “EKKERT LEYNIMAKK – SPILIN Á BORÐIÐ!” þá er ég sannfærður um að síðan þín er stórkostleg!  Ég er sammála þér Ögmundur, að leynimakkið við þetta allt saman, er orðið “þjóðhættulegt!”
Hugrekki þitt og þjóðhollusta er mér augljós og kemur fram þegar þú gengur af fundi iðnaðarnefndar og neitar kröfu fulltrúa Landsvirkjunar um að halda áfram leynimakki gagnvart íslensku þjóðinni. Þú segir réttilega að upplýsa eigi um ALLA þætti Kárahnjúka framkvæmdanna og fyrirhugaðrar álframleiðslu ALCOA á Íslandi. Þetta segir mér að þjóðin á fulltrúa á háttvirtu Alþingi, sem hún getur virt og treyst!  
Ögmundur, ég þakka þér og styð þig, er þú segir; að þú munir "ekki taka þátt í yfirhylmingu gagnvart þjóðinni" því auðvitað er fyrst og fremst verið að halda upplýsingum leyndum gagnvart henni!  Ég vona bara Ögmundur, að þú hafir ekki verið sá eini sem gekkst út, frekar en að svíkja þjóðina!
Þegar um er að ræða Kárahnjúkavirkjun og leyfi ALCOA til að starfrækja álverksmiðju á Íslandi, byggist leyfið auðvitað á vilja og samþykki íslensku þjóðarinnar og fulltrúa hennar á háttvirtu Alþingi. Auðvitað verður þjóðin og alþingismenn hennar að vita um og skilja ALLTAF ALLA þætti framkvæmda, sem tengjast Landsvirkjun, og vera sannfærðir um að hagsmuna Íslendinga sem eiga fyrirtækið, sé gætt að ÖLLU LEYTI! 
Auðvitað er arðsemin af Kárahnjúkaframkvæmdunum þjóðinni fyrst og fremst mikilsvert, því það er ekki svo lítill kostnaður ásamt erlendum lánunum sem hún ber ábyrgð á.  Auðvitað verður að meta náttúruspjöllin og ekki síst ALLA jarðfræðilegu þættina gaumgæfilega, ásamt veggjum og botni lónsins og svo framvegis, því þar hvílir öryggi stíflunnar!  Það hlýtur að vera nánast glæpsamlegt ef slíkt er ekki gert, og þá áður en lónið verðiur fyllt af vatni og rafalar verða starfræktir!
Fólk eins og fulltrúar Landsvirkjunar ásamt ráðherrum og ráðuneytum sem bera ábyrgð á framkvæmdunum, verða að skilja að þeir eru starfsmenn þjóðarinnar og sem slíkum ber þeim að vernda og treysta ALLA hagsmuni íslensku þjóðarinnar hvarvetna! 
Að vera í leynimakki gagnvart þjóð sinni, sem hefur þá á launum til að starfa fyrir sig og halda mikilvægum upplýsingum leyndum fyrir henni, er frá mínum bæjardyrum séð, ekki aðeins mistök, eða athugunarleysi kærulauss fólks, heldur meintur stórglæpur, sem ber að rannsaka eins og ALLT þetta mál, eins og þú bendir réttilega á Ögmundur!
Svo á að heita að við Íslendingar búum í elsta lýðræðisríki heimsbyggðarinnar, sem ætti að vera stór fjöður í okkar hatt. En lýðræðið á að vera í alvöru, ekki bara í sögúbókum, hvað þá sýndarveruleiki. Það er til lítils að gleðjast yfir fornri frægð ef við höfum ekki manndóm til að gefa lýðræðinu inntak á vorum dögum. Ég er nánast orðlaus yfir leynimakkinu og finnst bæði Alþingi og okkur öllum - íslensku þjóðarfjölskyldunni – gerð skömm til. Og það mega menn vita að ef lýðræði á að vera annað og meira en orðin tóm verður þjóðfélagið að vera opið og þjóðin virk í málum sínum!
Ég er svo sannarlega sammála þér Ögmundur, og geri ráð fyrir að öll þjóðin sé það líka, að það sé komin tími til að “ÖLL SPILIN SÉU LÖGÐ Á BORÐIД gagnvart ÖLLU þessu fyrirtæki!  Það er það minnsta sem íslenska þjóðin á skilið!
Helgi Geirsson