Fara í efni

ÓLÍFUVIÐARGREININ

MBL
MBL

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 9/10.06.18.
Frá örófi alda hefur grein af ólífutré verið tákn um frið. Svo var með forn-Grikkjum og síðar Rómverjum. Með kristninni verður framhald á og allar götur fram á okkar dag hefur ólífuviðargreinin birst í málara- og höggmyndalist sem friðartákn. Kóngar og keisarar, sem vildu láta líta á sig sem friðflytjendur tóku sér ólífuviðargrein í hönd þegar þeir sátu fyrir hjá listamönnum, sem höfðu það hlutverk að gera minningu þeirra ódauðlega.

Varla þarf þó að minna á að misjafn sauður er í mörgu fé eins og dæmin sanna fyrr og síðar. Og eitt átakanlegasta dæmið um misnotkun á friðartákninu er hernaður Erdogans, Tyrklandsforseta, í Afrin. Heitið vísar til borgar og héraðs sem er hluti af sjálfsstjórnarsvæði Kúrda í norðanverðu Sýrlandi. Innrás tyrkneska hersins í Afrin hófst 20. janúar síðastliðinn, með tilheyrandi morðum, limlestingum, nauðgunum og pyntingum auk þess sem byggingar og minnismerki, sem ekki eru í anda hinna drottnandi ofbeldisherja, voru jöfnuð við jörðu.

Þegar seig á seinni hluta marsmánaðar var svo komið að tyrkneski herinn og „frjálsi sýrlenski herinn" höfðu náð Afrinborg og fjölmennustu byggðakjörnunum á svæðinu á sitt vald. Samstundis hófust grimmilegar þjóðernishreinsanir. Fullyrt er að mörg hundruð þúsund manns séu nú á vergangi á þessu svæði og hafi margir leitað til fjalla. Kúrdum, kristnum mönnum og gyðingum er meinað að snúa aftur til heimila sinna en í þeirra stað hefur svokölluðum jihadistum, hryðjuverkamönnum af sauðahúsi ISIS, verið fenginn samastaður á heimilum þeirra. Þetta eru félagar í „frjálsa sýrlenska hernum" sem hrakist hafa undan stjórnarher Assads á síðustu vikum en fá nú verkefni sem böðlar Erdogans í þjóðernishreinsunum hans í vestanverðum Kúrdahéruðunum, sem liggja að Tyrklandi.

Í lok síðasta mánaðar var ég viðstaddur vitnaleiðslur þegar stríðsglæpadómstóllinn í París, sem starfað hefur í anda Bertrands Russells allar götur frá sjöunda áratug síðustu aldar, rannsakaði hvort fyrir því væru óyggjandi sannanir að tyrknesk stjórnvöld væru sek um stórfellda stríðsglæpi og mannréttindabrot á hendur Kúrdum. Niðurstaðan var afgerandi og í þessa veru. Úrskurðurinn var kunngerður í salarkynnum Evrópuþingsins í Brussel en í tengslum við þann atburð átti ég viðræður við Kúrda frá Afrin sem lýstu örvæntingu sinni vegna þess sem þar væri nú að gerast: „Ef heimurinn vaknar ekki og stöðvar ofbeldið nú þegar, þá verður það of seint," sagði þetta fólk, sem fylgist með atburðarásinni frá degi til dags.

Það sagði jihadistana hafi myrt eða fangelsað alla þá sem barist höfðu undir merkjum YPG, varnarsveita Kúrda í norðanverðu Sýrlandi, jafnt konur sem karla. Konur urðu sem kunnugt er þekktar fyrir vasklega framgöngu í vörnum Kúrda í stríðinu við ISIS á síðustu árum. Hinir nýju herrar hefðu nú gert þeim að afhenda herbúninga sína og þær síðan látnar klæðast með svipuðum hætti og gerist hjá öfgafyllstu trúarofstækismönnum í Sádi-Arabíu og í fjallahéruðum Afganistans. „Og allt þetta lætur NATÓ viðgangast!"

Það er rétt hjá þessu örvæntingarfulla fólki frá Afrin að Tyrkland er í NATÓ og það er líka rétt ályktað að þar er flest gert, eða látið viðgangast, í góðum göngutakti - allra.

En hlýtur það svo að vera? Þarf ekki að heyrast meira en ámátlegt hvísl um að Íslendingar séu ekki alls kostar sáttir? Þarf ekki að tala hátt og skýrt þegar við verðum vitni að þjóðernishreinsunum, fjöldamorðum, pyntingum og mannréttindabrotum, svo viðbjóðslegum að þau flokkast sem glæpir gegn mannkyni?

Á virkilega að láta nægja að gráta yfir þessu seinna þegar við lesum um svívirðuna í sögubókum framtíðarinnar? Þá munu þessir atburðir fá þunga dóma og eflaust líka þeir sem þögðu yfir ofbeldinu - hernaðaraðgerð sem í tyrkneska stjórnarráðinu gengur undir vinnuheitinu „Ólífuviðargreinin".