Fara í efni

Ólafur Þ. Jónsson: Minning

Í dag fór fram útför Ólafs Þ. Jónssonar, Óla Komma. Svo samofið var kommanafngiftin Ólafi að ég skrifa kommi með stórum staf þegar það fylgir hans nafni þótt prófarkalesarar Morgunblaðsins vilji skiljanlega hafa lítinn staf  í minningargreinum því varla heiti menn því nafni. Þó var það nú svo að Óli Kommi hét nánst því nafni í vitund okkar margra. Hér á eftir fylgir minningargrein mín um Ólaf Þ. Jónsson í Morgunblaðinu í dag. Það eitt er breytt hér að neðan að lítið k verður stórt K. Enda um stóran mann að ræða.

Eftirfarandi er minningargrein mín:

Óli Kommi var kommi. Hann var í alvörunni sá sem hann sagðist vera og hann fór aldrei í grafgötur með sínar pólitísku skoðanir enda ekki ástæða til. Það er hins vegar önnur saga. Það sem máli skiptir er að menn séu heiðarlegir, séu í reynd þeir sem þeir gefa sig út fyrir að vera.

Mér hefur alltaf þótt Ólafur Þ. Jónsson vera merkilegur maður. Við kynntumst fyrst á kaffistofu BSRB fyrir um það bil þrjátíu og fimm árum. Áður hafði ég þekkt hann af afspurn en þarna á kaffistofunni hittumst við fyrst augliti til auglitis. Ég man sérstaklega eftir því hve traust handtak hans var, bæði þétt og hlýtt. Já, hlýtt. Og endurminning mín um hann er um hlýjan mann.

Ég var nýkominn til starfa á BSRB kontórnum þegar Ólafur Þ. Jónsson kom í þessa heimsókn. Sennilega var þetta haustið 1988. Mér var tilkynnt um komu vitavarðarins á Hornbjargi með mikilli andakt enda höfðingi á ferð, sjaldséður og ástæða til að hafa nokkuð við.

Siðan átti ég margar samverustundir með Ólafi Þ. Jónssyni og alltaf voru þær ánægjulegar, gefandi og skemmtilegar. Einhvern tímann þegar ég var að leita fanga um róttæk skrif hafði ég uppi á ýmsum ritsmíðum hans í blöðum og tímaritum. Þær voru jafnan afburða vel skrifaðar, rækilega rökstuddar og hittu að því er mér fannst alltaf í mark.

Að því er mér fannst, segi ég vegna þess að ég veit fullvel að þessar greinar voru ekki allra. Óli var kommi, sem áður segir, og því fer fjarri að allir sem sóttust í að lesa skrif hans hafi verið sama sinnis. En þó er það svo að ég trúi því að einnig andstæðingar hans hafi virt hann að verðleikum, alvörumann með skýra stefnu sósíalistans, andstæðing heimsvaldastefnu, málsvara verkamannsins og þjáðra manna í öllum löndum.

Mikið vildi ég að til væru fleiri hans líkar. Fyrir aldamótin stofnuðum við nokkur Stefnu, félag vinstri manna. Félaginu var ætlað að vera í startholunum ef vinstri menn yrðu allir tilneyddir að gerast Samfylkingarkratar fyrir það eitt að ekki væri í önnur hús að venda. Þetta ætluðum við ekki að láta gerast. Við svo búið tæki Stefna flugið.
En svo varð til Vinstrihreyfingin grænt framboð. Og þar vorum við báðir um borð við Óli Kommi. Til að byrja með. Óli steig frá borði þegar honum þótti farið að sigla undir hentistefnufána; að leiðir hefðu skilið með flokki og fyrirheitum. Og eftir því sem VG varð linari í andstöðunnni gegn heimsvaldastefnunni og NATÓ, þeim mun hærra reisti Ólafur Þ. Jónsson Stefnuflaggið á 1. maí.
Þá þótti mér gott að vera nærri Óla Komma.

Mikill sjónarsviptir er að þessum góða félaga. En horfinn úr huganum verður hann þó seint. Ég hef grun um að Óli Kommi hafi verið framsýnni en flestir á vinstri vængnum. Ef við vildum raunverulega að okkar tími kæmi, sagði hann, þá þyrftum við að vita hvert við stefndum og þora síðan að standa við gefin fyrirheit. Það gerði Ólafur Þ. Jónsson alla tíð. Enda véfengdi það ekki nokkur maður að Óli Kommi væri kommi.

Blessuð sé minning hans.

Með samúðarkveðjum til Svandísar og fjölskyldunnar allrar.