Fara í efni

ÖFGASTEFNA FRAMSÓKNAR ER Á ÁBYRGÐ SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS

Stundum segja menn meiningu sína í spurningum. Og ef menn vilja leggja áherslu á meiningu sína setja menn spurninguna í fyrirsögn. Það gerir Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, í pistli á heimasíðu sinni í dag. Einar K. spyr: "Þolir efnahagslífið frekari stóriðjuframkvæmdir?"  Sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins er greinilega felmtri sleginn yfir hinum yfirlýsingaglaða framsóknarráðherra Valgerði Sverrisdóttur, sem í dag sótti fund forstjóra auðhringsins Alcoa í New York ásamt íslenskum sveitarstjórnarmönnum til þess að hlýða á boðskap þeirra um hvar á Íslandi þeir hygðust reisa næsta álver sitt! Valgerður, iðnaðarráðherra Íslands, sem hafði forgöngu um að niðurlægja þjóðina með þessari för til New York, sagði í fréttaviðtali í dag að forsvarsmenn Alcoa hefðu aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum! Með öðrum orðum, nýlenduherrarnir voru svo yfirkomnir af hrifningu á undirlægjuhætti íslenskra stjórnvalda, sem færa þeim öll völd yfir landi og þjóð í hendur, að þeir hafa aldrei kynnst öðru eins!!

En reynum að leiða þetta hjá okkur og víkjum aftur að pistli Einars K. Guðfinnssonar, sjávarútvegsráðherra. Einar K. talar í bland dulmál með því að pakka máli sínu inn í miklar umbúðir með lofgjörð um stóriðjustefnu almennt. En tilgangur hans er þó augljós því jafnframt þessu eru varnaglarnir slegnir hver á fætur öðrum eins og bæði hann og formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, hafa gert að undanförnu. Einkum hafa þeir varað við efnahagslegum afleiðingum stóriðjustefnunnar eins og Framsóknarflokkurinn kynnir hana. Ég gef mér að þessir menn báðir hafi hrokkið við þegar Valgerður hóf upp raust sína í Nýju Jórvík í dag. Í yfirlýsingu frá Alcoa um framgöngu hennar segir m.a.," Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði á fréttamannafundi í New York í dag, að staðarvalið væri mikilvægur áfangi í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar." 

Það er ekki að undra að Einar K. Guðfinnsson hafi sest við skriftir. Í pistli hans frá í dag streyma fram varnaðarorðin. Þar segir m.a. "Svo er líka nauðsynlegt að slá  varnagla. Engar þær framkvæmdir sem hafa verið í umræðunni eru ákveðnar. Það standa yfir viðræður málsaðila, enn er óljóst með orkuöflun, umhverfismat og skipulagsmál að einhverju leyti amk. Allt þetta tekur sinn tíma, svo það er fráleitt að tala, eins og stundum er gert, að yfir okkur sé að hellast á morgun eitthvað óskaplegt magn nýrra álversframkvæmda. Það er því rétt að menn andi nú rólega."

Já, en Einar K. Guðfinnsson, það er verið að tala um að hella yfir okkur frekari álvæðingu með stórfelldu inngripi ríkisins! Vissulega má með sanni segja að alltaf sé rétt að anda rólega og sýna yfirvegun. En svo rólegir í tíðinni mega menn ekki verða að þeir sýni andvaraleysi og sofandahátt. Sá tími er liðinn að Sjálfstæðisflokkurinn geti leyft sér að sitja á áhorfendabekkjunum í þessu risavaxna hagsmunamáli þjóðarinnar. Enda þótt Framsókn dragi álvagninn þá staðnæmist hann á því augnabliki sem Sjálfstæðisflokkurinn segir stopp. Stóriðjuöfgastefna Framsóknar, eyðileggingin á landinu í þágu erlendra auðhringa og  hin efnahagslegu spellvirki sem þessi stefna veldur er á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins, ekkert síður en Framsóknarflokksins. Sá sem lætur brennuvarg fara sínu fram án þess að reyna að stöðva hann með öllum tiltækum ráðum er ábyrgur fyrir íkveikjum og stórbrunum sem hann er valdur að.

Pistill Einars K. Guðfinnssonar er HÉR