Fara í efni

ÖÐRUM TIL VIÐVÖRUNAR!

Sæll Ögmundur.
Þú greindir frá því fyrir skömmu að bráðlega verði umsókn kínverjans Huang Nubo um að kaupa Grímstaði á Fjöllum afgreidd frá ráðuneyti þínu. Ágreiningurinn í þessu máli virðist fyrst og fremst standa um hvort leyfa eigi kínverjanum að kaupa jörðina eða ekki. Persónulega finnst mér það ekki skipta meginmáli. Ef kínverjinn hefði sett fram einhverjar skynsamlegar áætlanir um uppbyggingu á ferðaþjónustu á svæðinu teldi ég það í raun hið besta mál enda, ef rétt er með farið, virðast hagsmunir Íslendingar hvað varðar auðlindir og vatnsréttindin nokkuð trygg. Það er umfang framkvæmdanna sem mér líst ekkert á og get eiginlega ekki lýst öðru vísi en sem geggjuðum skýjaborgum. Álitsgerðir þær og minnisblöð sem Árni Páll Árnason og ráðuneyti hans hafa látið rigna yfir þig og lekið jafnharðan í fjölmiðla eru í svipuðum dúr, þótt steininn tæki úr með stílbrögðunum um æðarfuglinn og dúninn núna í vikunni, þvílík smekkleysa og tilgerð. Það er engu líkara en Samfylkingarmönnum sé ekki sjálfrátt þegar þetta mál er annars vegar. Ef sú verður raunin að Huang fær að kaupa jörðina og hefja framkvæmdir þá legg ég eindregið til að þú reynir að koma inn í samninginn ákvæðum þess efnis að ef allt fer á hliðina og við sitjum uppi með hálfkarað þriggja hæða, tvö hundruð herbergja hótelskírmsli á miðhálendininu þá verði þeir þingmenn og ráðherrar sem helst beittu sér í málinu skyldaðir til að búa í því viku til hálfan mánuð á ári næstu misserin, helst yfir háferðamanna tímann, öðrum til viðvörunar.
Með bestu kveðju,
Guðmundur J. Guðmundsson