Fara í efni

NÝJA GENGIÐ OG GAMLA GENGIÐ

Sansafn frjálshyggjunnar
Sansafn frjálshyggjunnar

Í byrjun níunda áratugar síðustu aldar voru, bæði vestan hafs og austan, stofnaðir hugmyndabankar, „think tanks" til að halda utan um hugmyndavinnu frjálshyggjumanna og koma áróðri þeirra til skila inn í þjóðfélagið.

í framvarðarsveit evrópskra og bandarískra frjálshyggjumanna, sem þá fóru mikinn að boða fagnaðarerindi sitt, var Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor. 

Til sanns vegar má færa að stofnun Jóns Þorlákssonar, sem sett var á laggirnar hér á landi í ársbyrjun 1983, að frumkvæði Hannesar Hólmsteins, hafi verið slík stofnun. Framkvæmdastjórinn var að sjálfsögðu Hannes en í stjórn voru ýmsir áhrifamenn úr íslensku viðskiptalífi. Akademískt ráðgjafaráð kom einnig að starfseminni, væntanlega til að hafa yfirbragðið rétt. Á meðal þeirra sem þar sátu má nefna James M. Buchanan, bandarískan háskólaprófessor og Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði.

Buchanan var svo einn þeirra sem Jóns Þorlákssonar stofnunin fékk hingað til lands í þágu málstaðarins. Á meðal annarra sem komu, til að vitna hinu heilaga pólitíska orði, má nefna þá félaga í andanum, Milton Friedman og Friedrich Hayek. Miðað við Buchanan voru þeir síðarnefndu sagðir nokkuð útvatnaðir, svo stækur var hann.

Tilefni þess að þetta  kemur nú  upp í hugann er að í dag birtist í vefmiðli breska blaðsins Guardian, fróðleg grein um nýlega bók sem út er komin um Buchanan, en þar kemur fram á hve purkunarlausan hátt hann gerðist borgaður málaliði stórefnamanna. Í huga Buchanans fóru lýðræði og kapítalismi ekki vel saman og var á honum að skilja að einræði til varnar frelsi markaðarins gæti verið nauðsynlegt. Þetta viðhorf var án efa gagnlegt manni sem þjónustaði einræðisstjórn Pinochets í Chile og lagði honum línurnar hvernig beisla mætti lýðræðisöfl á borð við frjálsa verkalýðshreyfingu á meðan verið væri að koma öllu lifandi og dauðu á markað.   

Það var þessi tegund af frelsi - markaðsfrelsið -  sem Buchanan var helst hugleikið. Í útgáfu Jóns Þorlákssonar stofnunarinnar frá 1986, er að finna ritgerðir eftir gistivini Hannesar Hólmsteins frá þessum tíma og er þeirra á meðal téður Buchanan. Heiti ritsins er, Lausnarorðið er frelsið (The Key Word is Freedom).

En vel að merkja, frelsi þessara manna snýst um að geta valið á milli einkarekinna heilsugæslustöðva og svo einnig sáputegunda og alls hins í búðarhillunum.

Lengra þyrfti frelsið ekki að ná og ætti reyndar helst ekki að ná lengra. Alræði til verndar markaðnum væri réttlætanlegt að mati Buchanans.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig á því standi að hægri menn skuli komast upp með að einkavæða heilbrigðisþjónustuna þvert á almannavilja. Inn á slíkar brautir héldu breskir hægri menn með þá Thatcher og Blair sem merkisbera - allt í anda Buchanans. Hér á landi heita fánaberarnir Bjarni, Þorgerður og Óttarr, svo fáeinir séu nefndir.

Þetta fólk er nú að eyðileggja heilbrigðiskerfið í umboði kjósenda sinna.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir kjósendur Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks.

Fyrrnenfnd grein í Guardian í dag eftir George Monbiot er fróðleg og auk þess ágæt upprifjun:   https://www.theguardian.com/commentisfree/2017/jul/19/despot-disguise-democracy-james-mcgill-buchanan-totalitarian-capitalism