Fara í efni

NÝIR OG BETRI BANKAR: ÞJÓÐARBANKINN OG HÚSNÆÐIS-BANKINN

Legg til að Íslenska ríkið stofni ríkisbanka, sem gæti heitið til dæmis Þjóðarbankinn og undirbúi að yfirtaka skuldir íslensks almennings við glæfrabankana. Hættan sem þjóðin stendur frammi fyrir er sú að fari bankarnir á hausinn, sem sumir telja líklegt, þá má búast við bréfum frá skiptaráðanda til almennings þar sem óskað er eftir uppgreiðslu lána. Þetta gerðist í Danmörku í kringum 1990 og í Bretlandi ca. 1992. Þá fóru margir einstaklingar á hausinn og misstu húsnæðið. Ef hægt er að bregðast við ÁÐUR en þetta gerist, þá er hægt að koma í veg fyrir stórslys. Það er hægt að nota Íbúðalánasjóð í þetta verk að hluta og eins væri hægt að stofna banka sem tæki á öðrum lánum. Íslensku bankarnir skulda 10 þúsund milljarða, (sem hugsanlega er núna komið uppí 13 þúsund milljarða, eftir fall krónunnar), þannig að það er umfram getu ríkissjóðs að bjarga þeim. Enda skiptir engu máli fyrir íslenskan almenning hvort þeir fara á hliðina, svo lengi sem fólk getur fengið að greiða niður skuldir sínar með hæfilegum vöxtum og á hæfilegum tíma. Skuldir almennings eru hinsvegar ekki meiri en svo að lífeyrissjóðirnir gætu hæglega tekið þær yfir. Þar væri komið verðugt verkefni fyrir lífeyrissjóðina, því hvað er skynsamlegra en að nota eigin peninga til að greiða eigin skuldir. Þá væri líka hægt að hófstilla vextina og afnema verðtrygginguna. Við erum að tala um vinstri og hægri vasann á sömu buxunum.
Hreinn Kárason