Fara í efni

NÝ RÍKISSTJÓRN OG SPÁDÓMAR VÖLUSPÁR

Nú þarf tafarlaust að skipta um ríkisstjórn. Það þarf ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og VG. Sjálfstæðisflokkurinn fengi bankamálin og sæi um að láta lögmál markaðarins virka og VG fengi Heilbrigðis og menntamál og sæi um að skipa þeim mál á réttan veg. Guðlaugur Þór, nýr bankamálaráðherra myndi láta hendur standa fram úr ermum og "stokka upp" á markaðsvísu í bankageiranum. Þar myndu sparast milljarðatugir og hundruð, í stað þessarra tuttugu milljóna hér og fimmtíu milljóna þar, sem hann er að bardúsa við í heilsugeiranum, allt á kostnað venjulegs launafólks, ef það þá yfirleitt er nokkur sparnaður því einkareksturinn hefur reynst dýrari! Framkvæmdir í virkjanamálum yrðu samningsatriði og stóriðja yrði fryst í þrjú ár. Bönkunum yrði leyft að fara á hausinn en nýir og skuldlitlir, heilbrigðir bankar kæmu í þeirra stað og Ísland gæti nýtt krafta og hæfileika unga fólksins sem hefur menntað sig í viðskiptum. Kvótinn yrði endurheimtur, sem yrði auðvelt í bankagjaldþrotunum. Honum yrði dreift um landið. Öllu þessu var spáð fyrir í Völuspá. En eftir ragnarök, þar sem allt brann í eldi, gerðist þetta:

Sér hún upp koma
öðru sinni
jörð úr ægi
iðjagræna.
Falla fossar,
flýgur örn yfir
sá er á fjalli
fiska veiðir.

Hreinn Kárason