Fara í efni

NÝ RAFORKULÖG ALMENNINGI Í ÓHAG

Er ekki hægt, nú þegar öllum er orðið ljós sú skaðsemi sem nýju raforkulögin hafa í för með sér með auknum kostnaði og flóknara kerfi, að taka þau mál á einhvern hátt upp á Alþingi. Auðvitað var það augljóst öllum heilvita mönnum hverjar afleiðingar slíkra kerfisbreytinga yrðu, þó að iðnaðarráðherra og stjórnarliðið skellti skollaeyrunum við því. Með ólíkindum er, að nokkrum skyldi koma til hugar að hægt yrði að koma upp virkri samkeppni á rafokusviðinu þannig að almenningur hefði hag af, enda ekkert líklegra en að orkufyrirtækin sameinist fyrr en síðar á einn eða annan hátt, sem þýðir að gagnleg samkeppni til lækkunar orkuverðs verður trúlega aldrei annað en skýjaborgir. Þau rök , að Ísland yrði að koma þessu á vegna Evrópusamstarfs hafa alltaf verið óraunhæf, enda ekki líkur á að Ísland tengist raforkukerfi annarra landa í fyrirsjáanlegri framtíð.
Á.G.

Bestu þakkir fyrir bréfið. Ég er þér alveg sammála. Það skelfilega er að ríkisstjórnin öslar sífellt lengra út í fenið með hverju lagafrumvarpinu á fætur öðru. Nýjasta frumvarpið er hlutafélagavæðing Rarik. Reynslan af einkavæðingu raforkugeirans er alls staðar á sama veg: Hærra raforkuverð og minna öryggi.
Kv.
Ögmundur