Fara í efni

Ný hugsun

Birtist í Mbl. 06.05.2003
Í aðdraganda Alþingiskosninganna stöndum við frammi fyrir því að margir stjórnmálaflokkar segjast munu beita sér fyrir umtalsverðum skattalækkunum á komandi kjörtímabili fái þeir stuðning kjósenda í alþingiskosningunum. Að óbreyttu kerfi myndi slíkt rýra tekjur ríkissjóðs og stefna velferðarþjónustu okkar í tvísýnu. Í stað þess að veikja tekjustofna ríkis og sveitarfélaga þarf að efla þá. Þetta þekkja allir þeir sem þurfa á þjónustu velferðarstofnana að halda, hvort sem er á sjúkrahúsum, þjónustu við fatlaða, aldraða, í skólum, vísindastofnunum, löggæslu og yfirleitt á þeim sviðum sem almannaþjónustan tekur til. Öll almannaþjónustan þarf stöðugt að vera í endurskoðun með það fyrir augum að bæta hana og gera hana markvissa, en einnig þarf að koma í veg fyrir hvers kyns bruðl þar sem slíkt er að finna.

Réttlátara skattkerfi, traustari tekjustofnar

Skattkerfið hefur tvennu hlutverki að gegna: Afla almannasjóðum tekna og jafna kjörin í landinu, bæði með tilliti til tekna og einnig útgjalda. Þannig stýra skattleysismörk og skattprósentan fyrri þættinum, barnabætur, húslaeigubætur, vaxtabætur og aðrar millifærslur síðari þættinum. Því er ekki að leyna að um nokkurt skeið hefur skattaumræðan verið í eins konar öngstræti. Vandinn birtist annars vegar í því sem áður segir, að stjórnmálaflokkar hafa sett fram tillögur sem kæmu til með að rýra almannasjóði stórlega og hins vegar standa samtök launafólks, aldraðra og öryrkja frammi fyrir þeirri staðreynd að lítið hefur miðað í viðleitni þeirra til að bæta kjör þeirra hópa sem þeir eru í forsvari fyrir. Nánast hefur verið einblínt á skattleysismörkin sem leið til kjarabóta. Það kostar hins vegar 800 milljónir að hækka þau um eitt þúsund krónur sem þó gefur ekki nema 385 krónur í launaumslagið. Kjör þeirra sem hafa minnst handa á milli eru hins vegar svo rýr að þörf er á miklu meiri kjarbótum en þessi leið gefur.

Við öllu þessu þarf að bregðast og er mikilvægt að verkalýðshreyfingin leggi sitt af mörkum til að tefla fram nýjum hugmyndum sem sameina annars vegar réttlátt skattkerfi og hins vegar trausta tekjustofna fyrir velferðarþjónustu landsmanna. 

BSRB hefur undanfarið ár unnið að hugmyndum að nýrri nálgun til að tryggja tekjustofna almannasjóða og stórbæta hag lágtekju- og millitekjuhópa. Gunnar Gunnarsson hagfræðingur samtakanna hefur haft veg og vanda af þessari vinnu og hefur hann beitt mikilli hugmyndaauðgi við að nálgast viðfangsefnið. Niðurstaðan varð sú að í stað þess að hverfa frá meginforsendum núverandi staðgreiðslukerfis, bæri að styrkja það og færa að auki allar millifærslur, þ.e. barnabætur og húsnæðisbætur ( hugmyndin er að vaxtabætur og húsleigubætur verði sameinaðar í eitt) auk allra annarra sveiflujafnandi þátta inn í staðgreiðsluna. Þetta þýðir að tímabundnum  sveiflum í útgjöldum heimilanna yrði mætt þegar þær eiga sér stað en ekki eftir á.  

Ný aðkoma að skattlagningunni

Það sem er nýstárlegast í þessari nálgun er að hlutfallslegri skattbyrði yrði ekki stýrt með mörgum skattþrepum heldur með tekjutengdum persónuaflsætti. Sjálfri skattprósentunni yrði stillt fastri en tekjutenging persónuafsláttar myndi hins vegar jafna skattbyrðunum. Persónuafslátturinn yrði skerðandi yfir tilteknum mörkum en þó aldrei þannig að samanlögð jaðaráhrif kerfisins færu yfir þau jaðarskattmörk sem stefnt er að, jafnvel ekki hærri en 40%. Í núverandi kerfi er jaðarskatturinn hins vegar 58,55%.

Mörgum bregður í brún þegar sagt er að BSRB sé reiðubúið að færa skattleysismörkin niður, jafnvel fara með þau niður í 50 þúsund krónur. Þá ber að hafa í huga að kerfið byggir á allt annarri hugsun en núverandi kerfi enda segir hagfræðingur BSRB réttilega í viðtali við Morgunblaðið 5. maí, “ í núverandi kerfi kæmi þessi leið ekki til álita”. Hagsmunir þeirra sem minnstar hafa tekjur, þ.á.m. lífeyrisþega, öryrkja og atvinnulausra eru ekki fyrir borð bornir, þvert á móti er eitt meginmarkmið breytinganna að bæta kjör þeirra. 

Grundvallaratriði að rýra ekki ríkissjóð

Mikilvægast af öllu gagnvart þeirri umræðu sem nú fer í hönd um skattamálin er að menn nálgist hana með opnum huga, séu reiðubúnir að ná fram markmiðum sínum með nýjum aðferðum og leiðum. Annað er ávísun á stöðnun. BSRB hefur ekki endanlega gengið frá útfærslum sínum. Það verður gert á skattamálaráðstefnu sem bandalagið hyggst boða til í haust. En eitt er alveg ljóst, að forsendur kerfisbreytinganna skulu standa: stórbættur hagur lágtekju- og millitekjuhópa og sterk staða almannasjóða. Það stendur ekki til að rýra tekjur ríkissjóðs, og sveitarsjóða. Þvert á móti skulu þeir styrktir. Þetta er grundvallaratriði af hálfu BSRB. Enn er halli á tillögunum gagnvart ríkissjóði og mun BSRB ekki ganga endanlega frá þeim fyrr en sá halli hefur verið réttur af.