Fara í efni

NOKKRAR STAÐREYNDIR UM "GRÍMULAUSA SAMKEPPNI"

Talsmaður Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja var mættur eina ferðina enn í fjölmiðla nú um helgina til að gagnrýna Íbúðalánasjóð. Að þessu sinni var umkvörtunarefnið auglýsing sjóðsins þar sem fram kom að Íbúðalánasjóður krefðist ekki sérstaks uppgreiðslugjalds í þeim tilvikum þegar lán úr sjóðnum væru greidd upp. Þessa gjalds krefjast bankarnir hins vegar. Talsmaðurinn benti á að í lögum væri að finna heimild fyrir því að Íbúðalánasjóður krefðist slíkrar gjaldtöku og því fráleitt að auglýsa á þennan hátt! Staðreyndin er sú að Íbúðalánasjóði er því aðeins heimilt að beita þessu ákvæði ef sjóðurinn stefndi í þrot og þá aðeins tímabundið. Það er því í hæsta máta ósennilegt að til þess komi að ákvæðinu verði beitt. Hins vegar er deilt um heimildir bankanna til að krefjast uppgreiðsluþóknunar. En látum það liggja á milli hluta að sinni.

Menn eru orðnir ýmsu vanir frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja  í viðleitni þeirra til að bregða fæti fyrir Íbúðalánasjóð. En er ekki nokkuð langt gengið þegar samtökin vilja meina sjóðnum að upplýsa lántakendur um staðreyndir?

Nú sem fyrri daginn reyna Samtök banka og verðbréfafyrirtækja allar leiðir til að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef. Fyrst var kært til ESA - úrskurðardómstóls hins Evrópska Efnahagssvæðis. Þegar það ekki gekk reyndu bankarnir að undirbjóða Íbúðalánasjóð með vaxtalækkunum. Það gerðu þeir hins vegar ekki fyrr en þeir höfðu tapað kærumáli sínu hjá ESA! Það er ekki að ástæðulausu að við sem viljum standa vörð um samfélagslega rekinn Íbúðalánasjóð býður í grun að takist bönkunum að slátra sjóðnum yrði þess skammt að bíða að bankavextir hækkuðu að nýju. Dæmin hræða! Það er nefnilega rangt að bankarnir veiti Íbúðalánasjóði eðlilegt og sanngjarnt aðhald. Þessu er öfugt farið nema hvað bankarnir kveinka sér undan þessu aðhaldi og beita öllum ráðum til að koma í veg fyrir það. Um það hafa þeir samráð. Þeirra tæki eru ekki samkeppni heldur samráð. Allt tal bankanna um “heilbrigða samkeppni” ristir því grunnt. Eða hvað eru samtök banka og verðbréfaftyrirtæka þegar allt kemur til alls? Þau eru samráðsvettvangur þessara fyrirtækja. Starfar hann í anda samkeppni á markaði?

Og fyrst byrjað er að ræða um meintar óeðlilegar auglýsingar Íbúðalánasjóðs má spyrja hvort það sé ekki rétt að Fjármálaeftirlitið hafi gert athugasemdir við auglýsingar bankanna á 4,15% vöxtum - og að athugasemdin lúti að því að þær séu ekki sannleikanum samkvæmar? Lánin séu þinglýst á hærri vöxtum en tímabundið séu vextirnir lægri eða svo lengi sem tilteknum skilmálum er fylgt. Þurfa fjölmiðlar ekki að grafast fyrir um þetta?

Og ætla allir áhugamennirnir um samkeppni að taka því þegjandi að bankar hafi samráð um aðför að  Íbúðalánasjóði sem síðan megi aldrei svara fyrir sig á hinu margrómaða samkeppnistorgi? Eða skyldu ummæli Guðjóns Rúnarssonar framkvæmdastjóra Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja í Ríkissjónvarpinu í gær þar sem hann fordæmdi auglýsingar Íbúðalánasjóðs ekki verða einhverjum frjálshyggjumanninum umhugsunarefni?  Hann sagði að af hálfu Íbúðalánasjóðs værum við nú vitni að  “grímulausri samkeppni”. Alvarlegri ásökun virtist ekki vera að finna í hans orðaforða. En hvað með grímulaust samráð, skyldi það vera til í orðabók þessara samtaka?