Fara í efni

NÓG KOMIÐ AF BULLI UM HEILBRIGÐISMÁL!

Sæll Ögmundur.
Sem starfsmaður á Landspítala langar mig að taka undir það sem aðrir starfsmenn spítalans hafa hér skrifað. Að sjálfsögðu allir nafnlaust því að enginn þorir að segja frá raunveruleikanum eins og hann er - þá er hæstráðendum að mæta, það vita allir, auk þess sem við ritskoðum okkur sjálf. En þær væru margar sögurnar sem ég gæti sagt og greinarnar um hvað þar hefur gengið á. Mér blöskraði gjörsamlega Silfur Egils á sunnudaginn og það bull sem fékk þar að vaða uppi um heilbrigðismálin og fleira. Snýst pólitík Sjálfstæðisflokks og það sem er að gerast núna í heilbrigðismálum bara um kostnaðargreiningu? Svo mátti skilja á ráðherra. Ekki er hann vel að sér í málefnum spítalans, svo mikið er víst. Þar hefur um lítið verið talað annað síðustu árin og allur kraftur farið í kostnaðargreiningarnar, löngu áður en Guðlaugur Þór dúkkaði upp. Nei það sem ríkisstjórnin nýja er að gera í heilbrigðismálum er langt í frá að vera bara enn ein kostnaðargreiningin, sem nóg er af fyrir. Undir þetta kjaftæði íhaldsins í þættinum tók Björgvín viðskiptaráðherra að því er virtist af þvílíkri sannfæringu að það komst rækilega upp um hann og satt best að segja kom mér það á óvart og olli mér vonbrigðum. Hann vissi ekkert um hvað hann var að tala. Sannfæring Samfylkingarráðherranna í þessum málum virðist vera nákvæmlega engin, þau bara hæla Guðlaugi samráðherra. Svo bætti Björgvin gráu ofan á svart með því að segja að það væri "ásýndarvandi" hvar efnahagslíf þjóðarinnar er statt og hversu mikill ræfill ríkisstjórnin hefur reynst okkur á þessum tímum. Hún er víst að vinna svo mikið á fullu en það má bara ekki segja frá því, svo er kallað til funda þegar búið er að hrópa um það í margar vikur og þá eru aðgerðirnar allar einhvers staðar á næsta leiti og hafa verið í margar vikur. Ég held það séu þó nokkuð margar vikur Ögmundur síðan ég las þín skrif og ákall um þjóðarsátt. Svo núna þegar Ingibjörg Sólrún tekur sér pásu frá ferðalögunum og lætur þetta út úr sér þá er eins og fjölmiðlar hafi himinn höndum tekið. Alls staðar megum við núna sjá utanríkisráðherrann tala um þjóðarsáttina á meðan franskar herflugvélar sveima yfir okkur og nú síðast í kvöldfréttum ásamt honum Geir sínum. En hvar eru verkin? Hversu lengi hefur það tekið að draga ríkisstjórnina til funda og hversu gott er kaffið á fundunum? Ég hef ekki kosið undanfarin ár Ögmundur af því að ég er í gegnum árin búinn að fá nóg af pólitíkusum, en ég fylgist ennþá vel með. Ég hélt að Samfylkingin ætlaði að breyta einhverju sem "höfuðandstæðingur" Sjálfstæðisflokksins. Það er öðru nær. Fyrir utan hana Jóhönnu þá virðast þau öll vera meira og minna ráðvillt á valdastól og taka Framsókn fram ef eitthvað er með því að velja einungis flokksfélaga eða fólk með rétta flokksskírteinið og flokkstengingar í störf og embætti. Aðalmálið sem þau virðast hafa komið í gegn hægrikratarnir er ný Varnarmálastofnun. Það er stærsta verk þeirra til þessa. Var mér lofað því verki í kosningabaráttunni þegar ég kaus? Nei. Það kom aldrei til tals, enda er þetta þvert gegn vilja þjóðarinnar að búa til ríkisbákn um slíka vitleysu á meðan heilbrigðis-stofnunum blæðir. Geta þau ekki einu sinni losað okkur undan eftirlaunaósómanum? Af hverju er ekki ýtt meira á það mál svo það sé einfaldlega afgreitt? Ég veit ekki hvort ég mun kjósa ykkur enda langt í kosningar en ég vil þakka þér fyrir að tala um heilbrigðismál og málefni Landspítala og starfsfólks hans af þekkingu og málefnalega. Það mættu þeir sem öllu ráða og fá svo að vaða uppi með markleysu taka sér til fyrirmyndar.
Heilbrigðisstarfsmaður