Fara í efni

NEYTENDUR HAFÐIR AÐ FÉÞÚFU – STJÓRNMÁLAMENN AÐ FÍFLUM

Ég horfði á Kastljós Sjónvarpsins í kvöld þar sem fjallað var um lyfjaverð. Landlæknir sagði að mönnum hlyti að hafa verið ljóst hvað í vændum var þegar lyfjasalan var gefin “frjáls” í stjórnartíð Kratanna á fyrri hluta tíunda áratugarins. Ég man ekki betur en á þetta væri bent og þá einkum af hálfu BSRB. Menn vildu hins vegar ekki hlusta á varnaðarorðin. Nú horfa menn upp á afleiðingarnar – einokun þar sem neytendur og skattgreiðendur eru hafðir að féþúfu – og stjórnmálamenn að fíflum (það er að segja sumir þeirra).Væri ekki ástæða til að rifja þessa sögu upp?
Grímur

Þakka þér bréfið Grímur. Það er rétt. Það væri ástæða til að rifja þetta upp og minna á að enn eru menn við sama heygarðshornið. Nú síðast er það samgönguráðherrann, sem telur það allra meina bót að einkavæða vegakerfið þótt ljóst sé að slíkt er óhagkvæmara og dýrara. Það sanna dæmin héðan og erlendis frá. Það er hins vegar svona þegar menn láta stjórnast af blindri hugmundafræði.
Kveðja,
Ögmundur