Fara í efni

NATO á leið til fortíðar – við því þarf að bregðast

Sjö ný ríki, öll í Mið- og Austur-Evrópu, gengu í NATO í vikunni. Bush Bandaríkjaforseti fagnaði þeim ákaflega og kvað inngöngu þeirra styrkja hernaðarbandalagið. Hann sagði öll ríkin hafa verið "fanga heimsveldis" og vísaði þá að sjálfsögðu til Sovétríkjanna. Þetta er að hárrétt en óneitanlega er skrýtið að hlusta á Bush forseta Bandaríkjanna tala með um heimsveldi og heimsvaldastefnu eins og ekkert standi honum fjær.
Viðbrögð Rússa við stækkun NATO austur á bóginn voru harðari en margan hafði grunað að yrði raunin og minnti um sumt á gamla tíma. Talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, Vladímír Tsjízhof, sagði þessar breytingar ótvírætt skaða pólitíska og hernaðarlega hagsmuni Rússlands: "Við teljum að okkur stafi ógn af stækkuninni og að hún krefjist viðbragða af okkar hálfu í hermálum. Slíkra viðbragða er að vænta."
NATO hefur í hyggju að hefja þegar í stað eftirlitsflug yfir Eystrasaltsríkjunum. Rússar telja þetta gert til að njósna um rússneska herinn. Bush þykir gaman að klæðast hergalla. Pútín, forseti Rússlands, á eflaust gamlan KGB búning inni í skáp, t.d. frá því hann var foringi í sovésku leyniþjónustunni í Austur-þýskalandi.
Er einhver sem trúir því í hjarta sínu að þessir menn séu að vinna í okkar þágu? Halda ef til vill einhverjir að allt þetta sé til þess fallið að draga úr spennu og skapa friðvænlegri veröld? Gæti verið að skynsamlegasta leiðin til að leggja okkar á vogarskálar friðar væri að tala gegn hernaðarhyggju hvar sem því væri við komið og gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að veikja hernaðarbandalög? Er ekki besta leiðin til þess, og jafnframt besta leiðin til að tryggja öryggi Íslands, að fara að gömlu ráði: Ísland úr NATO – herinn burt!