Fara í efni

Mótmælum stríðsglæpunum í Írak

Undanfarna sólarhringa hafa borist fréttir af stríðsglæpum í Írak. Fallujah, 300.000 manna borg, hefur nánast verið jöfnuð við jörðu. Enginn veit hve margir óbreyttir borgarar hafa verið drepnir. Fyrir árásina var skrúfað fyrir vatn og rafmagn til borgarbúa. Hjálparstofnunum var meinaður aðgangur að borginni og allur flutningur hjálpargagna inn í hana bannaður. Fyrsta takmark árásarliðsins var að ná sjúkrahúsum á sitt vald til að koma í veg fyrir að fréttir bærust af mannfalli. Sprengjum og stýriflaugum hefur verið skotið á borgina af handahófi dögum saman. Drykkjarvatnið er orðið eitrað – taugaveiki breiðist nú út.

Þessar aðfarir minna á það þegar rússneski herinn jafnaði Grosni, höfuðborg Tjetjeníu, við jörðu. Og sé farið heldur lengra aftur í tímann þá minna aðgerðir bandaríska hersins á aðferðir nasista þegar þeir drápu fólk af handahófi til að valda sem mestri skelfingu. Ekki er langt síðan fjórir bandarískir hermenn voru myrtir í Fallujah og lík þeirra illa leikin. Þeirra hefndu bandarískir hermenn síðan með því að drepa borgarbúa af handahófi. Sjö hundruð manns lágu í valnum þegar hersveitirnar höfðu lokið sér af – börn, konur og karlar. Ljóst er að árásin sem nú stendur yfir á Fallujah er miklu mannskæðari. Enginn vafi leikur á því að þar er verið að fremja stríðsglæpi. Þeir glæpir eru ekki bara á ábyrgð Bush Bandaríkjaforseta og landa hans heldur einnig staðfastra bandamanna erlendra, þar á meðal Íslendinga. Við hljótum öll að mótmæla þessum stríðsglæpum og krefjast þess að ríkisstjórn Íslands geri slíkt hið sama opinberlega og á alþjóðavettvangi.

Í Fallujah var í valdatíð Saddams Husseins einna harðast andóf gegn einræðisstjórn hans. Þar er nú aftur eindregnast andófið gegn hernámsliði Bandaríkjamanna. Í bréfi borgaryfirvalda í Fallujah til Kofis Annans, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, hinn 14. október síðastliðinn, segir að borgarbúar almennt hafni öllum tengslum við hryðjuverkamenn og ómannúðlegar aðferðir þeirra. Í bréfinu segir: "Í Fallujah hafa Bandaríkjamenn skapað óljósan skotspón í al-Zarqaw (hryðjuverkamanninn innskot ÖJ). Þetta gerðu þeir fyrir tæpu ári, og alltaf þegar þeir eyðileggja íbúðarhús, moskur, veitingastaði, drepa börn og konur, segjast þeir hafa náð árangri í baráttunni við al-Zarqaw..Við hvetjum þig til að fá SÞ til að koma í veg fyrir fjöldamorðin sem Bandaríkjamenn og leppstjórnin undirbúa í Fallujah og víðar í landinu."

Sjá eftirfarandi tilvitnanir í framgreint bréf í grein eftir John Pilger í tímaritinu New Statesman í síðustu viku: "In Fallujah, [the Americans] have created a new vague target: al-Zarqawi. Almost a year has elapsed since they created this new pretext and whenever they destroy houses, mosques, restaurants, and kill children and women, they said: 'We have launched a successful operation against al-Zarqawi.' The people of Fallujah assure you that this person, if he exists, is not in Fallujah . . . and we have no links to any groups supporting such inhuman behaviour. We appeal to you to urge the UN [to prevent] the new massacre which the Americans and the puppet government are planning to start soon in Fallujah, as well as many parts of the country."