Fara í efni

Morgunblaðsmenn og aðrir fréttaskýrendur!

Ég vil vekja sérstaka athygli fréttaskýrenda og að sjálfsögðu allra annarra á lesendabréfi sem birtist á heimasíðunni í dag og fjallar um Carter-kenninguna. Vísað er í bréf sem þrír háttsettir menn í stjórn Bush Bandaríkjaforseta rituðu Clinton þáverandi forseta Bandaríkjanna árið 1998 þar sem þeir hvöttu til árásar á Írak á grundvelli Carter-kennisetningarinnar en hún gekk út á að verja olíuhagsmuni Bandaríkjanna.  Í lesendabréfi Ólínu er vitnað í þetta bréf sem er undirritað af þeim Donald Rumsfeld, Paul Wolfowitz og Richard Perle. Sá síðastnefndi er nú formaður Varnarmálaráðs, sem er ráðgefandi bandaríska hermálaráðuneytinu, Pentagon. Hinn skrifar í breska stórblaðið Guardian sl. föstudag þar sem hann fagnar því sérstaklega hve illa er komið fyrir Sameinuðu þjóðunum. Slóðin er:  http://www.guardian.co.uk/Iraq/Story/0,2763,918812,00.html

Í svari við lesendabréfi Ólínu er vísað á vefslóð sem hún sendi og er mjög upplýsandi um afstöðu bandarískra ráðamanna.

Er ekki tími kominn til að íslenskir fréttaskýrendur fari að segja okkur frá hugmyndaheimi þeirra manna sem stýra heiminum frá Washington. Morgunblaðið sló því upp á forsíðu um daginn að "þeir muni sprengja allt í tætlur". þessir Þeir voru að sjálfsögðu Írakar. En hvað er verið að gera þeim? Hver sprengir hvern? Einhvers staðar sá ég það rifjað upp að einhverju sinni á dögum Víetnamstríðsins þegar sagt var frá napalm-sprengjuárás á þorp í Víetnam sem eyddi þorpinu að fullu og drap alla sem þar bjuggu að sú skýring hafi verið gefin að árásin hafi verið gerð til að bjarga íbúunum undan oki kommúnisma. Nú logar Bagdad því Bush og efnavopnasalinn Rumsfeld eru að bjarga borginni.