Fara í efni

MORGUNBLAÐIÐ: SANNFÆRING EÐA TVÍSKINNUNGUR?

Í pistli hér á síðunni í gær lauk ég lofsorði á Staksteinahöfund Morgunblaðsins fyrir ágæta hugvekju frá síðasta sunnudegi. Ekki er efni til að endurtaka lof og prís vegna Staksteinapistils frá í dag. Umræðuefnið er andstaða Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs við stjórnarfrumvarp, sem auðveldar Valgerði álráðherra og félögum hennar í ríkisstjórn að veita heimildir til að rannsaka virkjunarkosti svo svara megi orkuþörf þeirra stóriðjufyrirtækja sem lokkuð hafa verið til landsins með kostaboðum um lágt orkuverð og þæg og undirgefin stjórnvöld.

Staksteinahöfundi mælist m.a. svo: "Fram kom í fréttum í gær að fimm þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hefðu þá talað í samtals 16 klukkutíma um frumvarp iðnaðarráðherra til breytingar á lögum um auðlindir í jörðu. Lengst hefur Jón Bjarnason talað, en hann hélt tæplega fimm klukkustunda langa ræðu um málið í síðustu viku. Í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi kom fram að hinir þingmennirnir 68 hefðu talað um málið í sex klukkutíma. Vinstri-grænir eru á móti frumvarpinu, það fer ekki á milli mála. Fleiri hafa lýst efasemdum um ágæti frumvarpsins, Morgunblaðið þar með talið. En hefur málþóf VG á þingi skilað einhverjum árangri, öðrum en að tefja þingið frá öðrum störfum? Frumvarpið verður væntanlega afgreitt frá þinginu í dag. Og hvað er þá orðið okkart starf í sextán stundir? kunna vinstri-grænir að spyrja. Það er tekið mark á stjórnmálamönnum, sem hafa eitthvað að segja. En það þýðir ekki að þeim mun meira, sem menn segi, því lengur sem þeir tali, þeim mun meira mark sé tekið á þeim. Því er eiginlega þveröfugt farið. Það er löngu kominn tími til að hætta þessum skrípaleik, sem er málþóf stjórnarandstöðu á Alþingi, sama hvað stjórnarandstaðan heitir hverju sinni. Þetta er ósiður í íslenzkri pólitík, sem grefur fyrst og fremst undan virðingu fólks fyrir þinginu og stjórnmálamönnum. "

Hér er verið að takast á um grundvallaratriði. Hvort gefa eigi grænt ljós á áframhaldandi orkunýtingu í þágu stóriðju eða setja hælana niður og segja að nú sé nóg komið. Morgunblaðið segist vera á sama máli og Vinstrihreyfingin grænt framboð hvað hið síðara varðar. Ekki virðist sannfæring blaðsins þó vera mikil. Staksteinahöfundi finnst öllu máli skipta að trufla ekki tedrykkjusiðina í sölum Alþingis. Það má ekki grafa undan "virðingu" þess og það má ekki "tefja þingið frá öðrum störfum". Átakamálið er hvort liðka eigi til fyrir aðilum sem eru reiðubúnir að eyðileggja til frambúðar jökulvötnin í Skagafirði, Skjálfandafljót og aðrar náttúruperlur, auk þess sem í húfi eru miklir efnahagslegir hagsmunir. Jú, segir Moggi. Endilega berjast gegn þessu, bara engan "skrípaleik".

Svona talar ekki fólk sem hefur sannfæringu og er að berjast fyrir henni. Maður sem upprunnin er á Ströndum, hefur verið bóndi í áratug, og starfað í Skagafirði um langt skeið, með eins mikla jarðtengingu og hugsast getur – Jón Bjarnason alþingismaður VG - talar í fimm klukkustundir um málefni sem brennur á honum sjálfum og samferðarfólki hans. Þennan mann og okkur hin sem erum samherjar hans í þessu máli sakar Morgunblaðið um að stunda skrípaleik!

Málþóf á að heyra sögunni til segir Morgunblaðið. Á Alþingi er almennt ekki stundað málþóf. Frá því eru þó undantekningar. Þegar fjölmiðlar og almenningur kveikja ekki á mikilvægi máls – eins og gerðist í þessu máli í flestum fjölmiðlum, þar á meðal Morgunblaðinu – þá setja þingmenn niður gaddana, hægja á umræðunni til þess að reyna að ná talsambandi við þjóðina. Þetta er gott og lýðræðinu mikilvægt. Við frábiðjum okkur allt tal um skrípaleik í því sambandi.

Yfirleitt ganga þingstörf mjög greitt fyrir sig. Það vill gleymast hve mikil samstaða ríkir um mörg mál sem afgreidd eru snurðulaust á þingi. Það eru aðeins stóru ágreiningsmálin sem kalla á langa umræðu. Dæmin sanna að almennt hefur það verið til góðs að hægja á afgreiðslu þeirra mála sem eru mjög umdeild og sýnt er að muni hafa mjög afdrifaríkar afleiðingar í för sér. Hér nefni ég hlutafélagavæðingu Pósts og Síma, Kárahjnúkavirkjun, mál sem tengdust Íslenskri erfðagreiningu, auðlindalögin. Fleiri mál mætti nefna en þau eru ekki mörg sem kallað hafa á mjög langa umræðu. Það á hins vegar við um þetta mál. Staksteinahöfundi Morgunblaðsins hrís hugur við þeirri tilhugsun að fimm þingmenn VG hafi talað í 16 klukkutíma, hinir 58 þingmennirnir - meirihlutinn að baki stjórnarfrumvarpinu, þ.e þingmenn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks, Frjálslyndra og Samfylkingar  - hafi aðeins talað í sex klukkutíma.

Annars vegar er um að ræða meirihluta, sem getur keyrt sitt í gegn í krafti yfirburðastöðu sinnar, hins vegar er það minnihluti sem reynir að breyta gangi mála. Morgunblaðið segist sammála minnihlutanum í þessu máli, Vinstrihreyfingunni grænu framboði, en biður flokkinn jafnframt um að þegja. Hvað segir þetta okkur um sannfæringu Morgunblaðsins í þessu máli? Mér finnst þessi afstaða jaðra við tvískinnung. Staksteinahöfundur staldrar ekki við til að spyrja hvers vegna alþingismaður flytji vandaða og tilfinningaþrungna ræða í fimm klukkustundir. Staksteinahöfundur gerir þetta að umræðuefni, að því er virðist, til þess eins að komast að eftirfarandi niðurstöðu: "Eins og á langflestum öðrum löggjafarsamkundum vestrænna ríkja á einfaldlega að takmarka ræðutímann á Alþingi."

Er ekki rétt að skála fyrir Morgunblaðinu? Ég legg til að við skálum í tei.